Flokksstofnanir flokkanna þriggja sem staðið hafa í stjórnarmyndunarviðræðum hafa verið boðaðar til fundar á miðvikudaginn þar sem stjórnarsáttmáli fyrirhugaðrar ríkisstjórnar verður lagður fram. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is.
Formenn flokkanna þriggja, VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þau Katrín, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, funda með formönnum annarra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi klukkan 12.00 í dag í Alþingishúsinu þar sem farið verður yfir störf þingsins framundan.
Þingflokksformenn flokka þrggja munu síðan fara fram eftir hádegi þar sem fyrirhugaður stjórnarsáttmáli verður kynntur þingmönnum flokkanna og lagður í dóm þeirra. Sjálfstæðismenn funda klukkan 13.00 í Alþingishúsinu og framsóknarmenn og vinstri græn klukkan 13.30.
Katrín segir í samtali við mbl.is að búið sé að sigla fyrir flestar víkur í stjórnarmyndunarviðræðunum. „Við teljum okkur vera komin á þann stað að við getum boðað til funda. Nú bíður okkar bara að ræða ráðuneytaskiptingu. Við erum svona að fara að ræða það fyrir alvöru núna.“
Katrín segir að það mál hafi verið rætt lítillega í upphafi en síðan sammælst um að geyma það þar til málefnavinnunni væri lokið. Aðspurð hvort hún verði forsætisráðherra segir hún að það hafi legið fyrir að hún hafi sóst eftir því að leiða mögulega ríkisstjórn.
Spurð hvenær megi búast við að ný ríkisstjórn taki við völdum segir Katrín að það hangi allt á niðurstöðu flokksstofnananna á miðvikudaginn. Verði stjórnarsáttmálinn samþykktur gerist það væntanlega fljótlega upp úr því.