Boðin formennska í þremur nefndum

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Eggert

Fyrirhugaðir ríkisstjórnarflokkar hafa boðið verðandi stjórnarandstöðu formennsku í þremur þingnefndum. Þetta kom meðal annars fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar  græns framboðs, eftir fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í morgun þar sem hún fékk afhent formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Ekki liggur fyrir hvort stjórnarandstaðan þiggi boðið.

Katrín sagði þetta til marks um áherslu fyrirhugaðrar ríkisstjórnar um að eiga samtal við stjórnarandstöðuna og eins að haft hafi verið samráð við formenn stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig staðið verði að afgreiðslu fjárlaga fyrir áramótin sem skammur tími er til að ganga frá. Spurð hvort fyrir lægi að jafnræði yrði á milli kynjanna í fyrirhugaðri ríkisstjórn sagðist Katrín hafa lagt mikla áherslu á að það væri sem jafnast.

Ekki væri þó víst að tala ráðherra yrði slétt tala en ekki stæði til að fjölga ráðherrum frá því sem nú væri. Hins vegar vildi hún ekki upplýsa frekar um fyrirkomulag ríkisstjórnarinnar. Það myndi ekki verða upplýst fyrr en á fimmtudaginn að því gefnu að stjórnarsáttmálinn yrði samþykktur af flokksstofnunum fyrirhugaðra stjórnarflokka. Stefnt er að því að ríkisráðsfundur fari fram á fimmtudaginn og ný stjórn taki þá við.

„Svo fremi sem flokksstofnanir samþykki stjórnarsáttmálann þá er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða,“ sagði Katrín. Hún sagði aðspurð ekkert liggja fyrir um það hverjir yrðu ráðherrar í næstu ríkisstjórn fyrir utan það að hún hafi lagt áherslu á það að veita ríkisstjórninni forystu. Búist er við að fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar verði á föstudaginn, 1. desember.

„Ég er bara mjög brött fyrir þetta stjórnarsamstarf

Spurð hvort hún hefði góða tilfinningu fyrir fyrirhugaðri ríkisstjórn sagðist Katrín hafa hana. „Ég er bara mjög brött fyrir þetta stjórnarsamstarf og ég held að þetta geti bara orðið þjóðinni og samfélaginu öllu til heilla.“ Katrín mun verja deginum í dag í það að funda með þingmönnum VG hverjum í sínu lagi um fyrirhugað stjórnarsamstarf.

Þær þingnefndir sem stjórnarandstöðunni hafa verið boðnar eru stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Sagði Katrín að stjórnarandstaðan ætti eftir að svara því hvort það boð yrði þegið. Spurð hvort hún væri í vafa um að það yrði þegið sagði Katrín:

„Ég tek bara mark á því sem þau hafa sagt, að þau vilji taka þátt í því að breyta vinnubrögðum á Alþingi. Þannig að ég trúi ekki öðru en að það verði.“

Hvað varðar afgreiðslu fjárlaga og annarra mála sem þurfi að klára sagði Katrín að á fundi formanna allra flokka á þingi hafi allir verið reiðubúnir að vinna vel til þess að ljúka þeim málum fyrir áramót.

„Ég vænti þess eftir þennan fund að það muni allir láta hendur standa fram úr ermum til þess að þetta muni heppnast. Þó dagarnir séu ekki margir.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á fundi þeirra í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert