„Þetta er bara spennandi, það er gríðarleg mæting og ég veit að það verða miklar umræður. Ég er bjartsýn og brött fyrir fundinn,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í samtali við mbl.is.
Flokksráð Vinstri grænna boðaði til fundar klukkan 17 í dag þar sem ríkisstjórnarsáttmáli Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks verður borinn upp til samþykktar.
Á fundinum munu Katrín og Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, greina frá stjórnarmyndunarviðræðum sem hafa staðið yfir síðustu daga. Þá munu þær kynna ríkisstjórnarsáttmála og fyrstu skref fyrirhugaðrar ríkisstjórnar.
„Ég býst við umræðum og skoðanaskiptum. Félagar í VG eru vanir að tala hreint út um sína afstöðu og ég hlakka til að sýna sáttmálann því hann er góður,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.
Fundurinn er ekki hugsaðir til að gera breytingar á sáttmálanum að sögn Svandísar. „Hann er niðurstaða samninga þannig að hann er lagður fyrir eins og hann kemur.“
Fundurinn er opinn öllum félögum í flokknum en aðeins fulltrúar í flokksráði hafa atkvæðisrétt.
Verði stjórnarsáttmálinn samþykktur af flokksstofnunum fyrirhugaðra stjórnarflokka í dag og í kvöld verða haldnir þingflokksfundir á morgun þar sem ráðherraefni hvers flokks verða kynnt þingmönnum þeirra.
Ennfremur er stefnt að því að ríkisráðsfundur fari fram á Bessastöðum á morgun þar sem ný ríkisstjórn muni taka formlega við völdum.