Spyr hvort VG verji ólöglegar skipanir dómara

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, fullyrðir að stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, fullyrðir að stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn muni þá eflaust þýða að VG muni „verja ráðherra sem misnotar vald og skipar dómara pólitískt." mbl.is/Ómar

Jón Þór Ólafsson, þingmaður og ritari þingflokks Pírata, hyggst leggja fram vantrauststillögu gegn Sigríði Á. Andersen, starfandi dómsmálaráðherra, fari svo að Katrín Jakobsdóttir skipi Sigríði áfram dómsmálaráðherra.

Frá þessu greinir Jón Þór á bloggsíðu sinni. „Dómsmálaráðherra braut lög við skipun dómara í Landsrétt  samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Ef Hæstiréttur staðfestir dóminn þá eru eflaust fáir sem í alvöru treysta Sigríði fyrir því að misnota ekki vald sitt sem dómsmálaráðherra,“ segir Jón Þór í færslu sinni.

„Svo ef Katrín Jakobsdóttir skipar Sigríði áfram dómsmálaráðherra þrátt fyrir dóm héraðsdómstóls og hæstiréttur staðfestir dóminn mun ég leggja fram vantraust á Sigríði í þinginu. Að sjálfsögðu.“

Fullyrðir Jón Þór því næst að stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn muni þá eflaust þýða að VG muni „verja ráðherra sem misnotar vald og skipar dómara pólitískt. Hvað segja kjósendur VG um það? - Deilið og taggið vin í VG.“

Segir hann Katrínu vel hafa vitað af því í vor að Sigríður væri að brjóta lög við skipan dómara í landsrétt, af því að hún hafi unnið málið með sér og Sigurði Inga í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hafi aukinheldur skrifað undir nefndarálit þar sem skipanirnar hafi verið gagnrýndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert