Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar í Valhöll í dag klukkan 13:30 og þingflokkur Framsóknarflokksins klukkan 17:00. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fundar ekki í dag en fundar hins vegar á morgun og sama á við um hina tvo flokkana. Flokkarnir þrír stefna að því að mynda næstu ríkisstjórn landsins.
Heimildir mbl.is herma að tilgangur þingflokksfundanna í dag sé að kynna endanlega útgáfu stjórnarsáttmála flokkanna þriggja en flokksráð Sjálfstæðisflokksins og VG og miðstjórn Framsóknarflokksins taka sáttmálann til afgreiðslu á fundum sem fram fara síðdegis og í kvöld. Fundur flokksráðs Sjálfstæðisflokksins hefst klukkan 16:30, fundur flokksráðs VG klukkan 17:00 og fundur miðstjórnar Framsóknar klukkan 20:00.
Verði stjórnarsáttmálinn samþykktur af flokksstofnunum fyrirhugaðra stjórnarflokka verða haldnir þingflokksfundir á morgun þar sem ráðherraefni hvers flokks verða kynnt þingmönnum þeirra. Ennfremur er stefnt að því að ríkisráðsfundur fari fram á Bessastöðum á morgun þar sem ný ríkisstjórn muni taka formlega við völdum.
Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG,verður þá væntanlega haldinn 1. desember, á fullveldisdag Íslands.