Töluverð uppstokkun á skattkerfinu framundan

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, mun leggja stjórnarsáttmála …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, mun leggja stjórnarsáttmála væntanlegrar ríkisstjórnar fyrir flokksráð flokksins síðdegis í dag. Stjórnarsáttmálinn verður eina umræðuefni fundarins og svo kjósa fulltrúar flokksráðs um hvort gengið verður til stjórnarsamstarfsins eða ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefnt er að því að draga verulega úr eignarhaldi ríkisins í viðskiptabönkunum. Þá verður samin hvítbók um endurskipulagningu fjármálakerfisins samkvæmt stjórnarsáttmála væntanlegrar ríkisstjórnar.

Frá þessu segir í umfjöllun um stjórnarmyndunarviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag. 

Stefnt er að því að draga verulega úr eignarhaldi ríkisins í viðskiptabönkunum. Þá verður samin hvítbók um endurskipulagningu fjármálakerfisins samkvæmt stjórnarsáttmála væntanlegrar ríkisstjórnar. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.

Óháðir aðilar verða fengnir til að vinna greiningu á fjármálakerfinu og leggja fram tillögur um hvernig skynsamlegt sé að hátta skipulagi þess til frambúðar. Vilji er til þess að leita til erlendra aðila um þessa vinnu og að þeir kynni niðurstöður á vormánuðum 2018.

Eigið fé bankanna í innviði

Áætlað er að lækka eigið fé Íslandsbanka og Landsbanka og nýta fjármagnið sem við það losnar í innviðauppbyggingu áður en tekið verður til við að losa um eignarhluti í bönkunum. Hagnaður af væntanlegri sölu verður hins vegar nýttur til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Til stendur að stofna þjóðarsjóð sem fyrst og fremst verði fjármagnaður með arði af orkuauðlindum. Verður sjóðurinn hugsaður sem stöðugleikasjóður fyrir íslenska hagkerfið.

Í sáttmálanum er gert ráð fyrir að lækka neðra þrep tekjuskatts og lækka tryggingagjald. Lækkanir þessar munu taka mið af kjaraviðræðum á opinberum- og almennum vinnumarkaði.

Þá hefur verið ákveðið að hækka fjármagnstekjuskatt úr 20% í 22% en samhliða hækkuninni verður skattgrunnurinn endurskoðaður. Þannig kemur til greina að raunávöxtun fjármagns verði skattlögð en ekki nafnávöxtun eins og verið hefur. Þá mun einnig koma til skoðunar hækkun frítekjumarks fjármagnstekna. Í dag liggur markið í 125 þúsund krónum á ári.

Samráðs verður leitað við hagsmunaaðila um mögulega álagningu komugjalda á farþega en ekki hefur verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti það verður gert. Þá mun gistináttagjald eiga að renna að fullu til sveitarfélaga.

Ekki stendur til að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu eins og fráfarandi fjármálaráðherra hefur sagt að staðið hafi til frá ársbyrjun 2018.

Unnið að rammaáætlun fjögur

Farið verður af stað með vinnu við rammaáæltun fjögur og verður rammaáætlun þrjú lögð til hliðar, en ekki hefur tekist að afgreiða hana frá þinginu. Samkvæmt nýrri áætlun verður áhersla lögð á betri nýtingu fyrirliggjandi orkuframleiðslu í stað frekari virkjanaframkvæmda og að töluverðu fjármagni verði beint til uppbyggingar dreifikerfis raforku um landið.

Þá mun sáttmálinn kveða á um að verulega verði aukið við útgjöld til heilbrigðis- og almannatryggingakerfisins. Kosið verður um málefnasamning væntanlegrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokks á flokksráðs- og miðstjórnarfundum flokkanna í kvöld.

Reiknað er með því að flokksráð Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn Framsóknar samþykki stjórnarsáttmálann og væntanlegt stjórnarsamstarf. Í VG hafa um 160 félagar, víða að af landinu, skráð sig á flokksráðsfund flokksins og er ríkisstjórnarsáttmálinn eina málið á dagskrá. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er reiknað með löngum fundi en stjórnarsáttmálinn er hátt í 20 blaðsíður. Þingstyrkur VG mun enn vera í lausu lofti en Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn VG, hafa ekkert sagt til um hvort þau styðji samstarfið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka