„Við erum auðvitað sátt við þetta“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Bæði formaður og varaformaður Framsóknarflokksins segja það verða að koma í ljós hvernig ráðherraskipan verður í ríkisstjórn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem nú er í farvatninu. Þau segja spennandi að sjá hvernig sáttmálinn mun leggjast í Framsóknarmenn en miðstjórnarfundur flokksins fer fram á Hótel Sögu í kvöld þar sem sáttmálinn verður kynntur félagsmönnum. Þingflokkur Framsóknarflokksins fundar nú í húsakynnum Alþingis um fyrirhugað stjórnarsamstarf.

„Nú erum við að fara að kynna þetta á þingflokksfundinum. Við erum auðvitað búin að leggja áherslu á mörg af okkar grundvallarmálum eins og að styrkja innviði; menntakerfið, heilbrigðisþjónustu til dæmis og þetta verður núna kynnt fyrir þingflokknum og svo fyrir miðstjórnarfundi og það verður gott að heyra í flokksfélögum hvað þeim finnst,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is á leið sinni á fundinn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, tekur í svipaðan streng og Lilja. „Við erum auðvitað sátt við þetta, annars værum við ekki að leggja þetta fyrir flokksstofnanirnar í kvöld,“ segir Sigurður Ingi, spurður hvernig honum hugnast efni sáttmálans.  

Spurður um væntingar sínar til viðbragða miðstjórnar flokksins við efni sáttmálans segir Sigurður Ingi það þurfa að koma í ljós en hann vonist til þess að þau verði góð. „Í heild sinni er þetta bara ágætur sáttmáli að okkar mati og þess vegna tilbúin til þess að leggja hann fyrir flokksstofnanir sem grundvöllur að ríkisstjórnarsamstarfi,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert