Stjórnarsáttmáli verðandi ríkisstjórnar var samþykktur á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem fram fór á Grand hótel í kvöld með 80% atkvæða.
Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, og Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, höfðu áður kynnt sáttmálann fyrir flokksmönnum.
Alls greiddu 93 atkvæði. 75 flokksmenn samþykktu stjórnarsáttmálann en 15 greidu atkvæði gegn honum. Þar á meðal eru þingmennirnir Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem greiddu atkvæði gegn samningnum. Atkvæðagreiðslan var leynileg en þess var óskað af flokksmönnum rétt áður en gengið var til atkvæða. Þrír flokksmenn skiluðu auðu.
Hátt í 200 manns sóttu flokksráðsfundinn.
Frétt mbl.is: Greiða atkvæði gegn samningnum
Stjórnarsáttmálinn var samþykktur á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll nú síðdegis og nú stendur yfir fundur miðstjórnar Framsóknarflokksins þar sem sáttmálinn verður kynntur flokksmönnum og afgreiddur að því loknu.
Verði stjórnarsáttmálinn samþykktur af öllum flokkunum þremur í kvöld verða haldnir þingflokksfundir á morgun þar sem ráðherraefni hvers flokks verða kynnt þingmönnum þeirra.
Þá er stefnt að því að ríkisráðsfundur fari fram á Bessastöðum á morgun þar sem ný ríkisstjórn muni taka formlega við völdum.