Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Árborg, tilkynnti á Facebook-síðu sinni nú á sjötta tímanum að hann gæfi kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í vor.
„Það er erfitt fyrir ungt fólk að eignast fyrstu íbúð í Reykjavík. Framboð á húsnæði er takmarkað og þess vegna er verðið hátt. Þétting byggðar á einstökum reitum hefur í raun skilað sér í hærra verði og dreifðari byggð á höfuðborgarsvæðinu. Raunfjölgun íbúða er lítil sem engin þegar tekið er tilliti til útleigu til ferðamanna,“ segir Eyþór í færslu sinni.
Þá hafi lestrarkunnáttu barna í grunnskólum hrakað samkvæmt nýlegum rannsóknum og reykvísk börn eigi betra skilið.
Reykjavík sé sömuleiðis í miklum vanda í samgöngumálum og dýrar lausnir með borgarlínu muni auka á vandann með enn meiri þrengslum í gatnakerfinu. „Reykjavík á að vera í fararbroddi í nútímalegum samgöngum en festast ekki í dýrum og þunglamalegum lausnum. Þrengingarnar hafa nú þegar búið til kransæðastíflu í gatnakerfi borgarinnar. Stjórnkerfið hefur stækkað mikið og er dýrt í rekstri. Auk þess er flóknara en áður fyrir íbúa að fá lausn sinna mála. Það er því tækifæri að gera betur og breyta um stefnu í borgarstjórnarkosningunum í vor.“
Segist Eyþór hafa einlægan áhuga á að vinna fyrir fólkið sem býr í borginni við Sundin. „Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík,“ segir í færslunni.
Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að fjölmargir sjálfstæðismenn hefðu þrýst á Eyþór að bjóða sig fram og vísað máli sínu til stuðnings til árangurs hans í sveitarstjórnarmálum Árborgar.
Eyþór var oddviti sjálfstæðismanna og formaður bæjarráðs Árborgar 2010 til 2014.