Magnús vill 4. sætið hjá Samfylkingu

Magnús Már Guðmundsson biður um stuðning í 4. sætið í …
Magnús Már Guðmundsson biður um stuðning í 4. sætið í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Magnús Már Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, býður sig fram í 4. sæti í flokksvali flokksins í Reykjavík. Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna til margra ára og er formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.

Hann segir í tilkynningu að verkefni yfirstandandi kjörtímabils hafi verið fjölbreytt og skemmtileg. Magnús sinnti störfum borgarfulltrúa í um eitt og hálft ár og hefur einnig setið í velferðarráði, mannréttindaráði og forsætisnefnd auk þess að gegna formennsku í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar og í ferlinefnd borgarinnar.

Þá hefur hann leitt vinnu um gerð aðgengisstefnu fyrir Reykjavíkurborg og unnið að tilraunaverkefni borgarinnar um styttri vinnuviku án launaskerðingar. Það er mál sem Magnús hyggst halda áfram að beita sér fyrir.

„Um stórt hagsmunamál er að ræða sem sífellt fleiri tengja við enda er stytting vinnuvikunnar mikilvægur þáttur í því að fjölga samverustundum fjölskyldna og auka þannig lífsánægju Reykvíkinga,“ segir í tilkynningu frá Magnúsi Má.

Vill fjölskylduvænna samfélag

Magnús segist stoltur af starfi meirihlutans í borgarstjórn síðustu fjögur ár og að á komandi árum sé brýnt að halda áfram á sömu braut, styrkja innviði borgarinnar og forgangraða í þágu velferðar, fjölskyldna og jafnréttis.

„Brúa verður bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og ráðast þarf í stórátak til að fjölga menntuðum leik- og grunnskólakennurum,“ segir Magnús, sem vill koma á  fjölskylduvænna samfélagi þar sem foreldrum gefst tækifæri á að njóta meiri tíma með börnum sínum.

Hann segir einnig að halda þurfi áfram samvinnu við leigufélög sem starfi án hagnaðarsjónarmiða til að koma á vikrum leigumarkaði sem þjóni þörfum ólíkra hópa. Þá þurfti þjónusta við eldri Reykvíkinga að taka mið af þeim jákvæðu breytingum að fólk lifi lengur.

Magnús víkur að #metoo-byltingunni í framboðstilkynningu sinni og segir að þar megi borgin aldrei slá slöku við. Borgin verði að leggja sitt af mörkum til þess að þolendur sitji ekki einir uppi með skömmina og vanlíðanina sem fylgi rótgrónu kynjakerfi.

Magnús Már býr ásamt konu og þremur börnum í Bústaðahverfi, en er alinn upp í Neðra-Breiðholti. Hann er sem stendur í leyfi frá kennslu við Menntaskólann í Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert