60% Reykvíkinga hlynntir Borgarlínu

Fátt hefur endanlega verið ákveðið um lagningu Borgarlínu, en margir …
Fátt hefur endanlega verið ákveðið um lagningu Borgarlínu, en margir hafa á henni sterkar skoðanir. Kort/SSH

Rúmlega helmingur þátttakenda í nýrri skoðanakönnun Maskínu  lýstu sig fremur eða mjög hlynnta Borgarlínunni, eða 52,5%. 24,8% lýstu sig fremur eða mjög andvíga Borgarlínunni og 22,7% voru í meðallagi hlynnt eða andvíg Borgarlínu, sem er samstarfsverkefni allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um betri almenningssamgöngur á helstu samgönguásum svæðisins.

Skoðanakönnunin leiðir í ljós að Borgarlínan virðist vera orðin hápólitískt álitaefni. Þegar hlutfall þeirra sem lýsa sig hlynnta eða andvíga framkvæmdinni er sundurliðað eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa í dag, koma skýrir flokkadrættir í ljós.

Þeir sem segjast myndu kjósa Flokk fólksins, Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn eru neikvæðastir í garð Borgarlínu, en á bilinu 46,1-49,9% þeirra segjast andvígir Borgarlínu.

Meirihluti þeirra sem segjast ætla að kjósa aðra flokka eru jákvæðir gagnvart Borgarlínu. Yfir 80% þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna og Pírata segjast hlynntir Borgarlínunni.

Konur mun jákvæðari en karlar

Tæp 34% karla lýsa sig andvíga, en einungis 15,3% kvenna. Þá virðist ungt fólk mun hlynntara Borgarlínunni en þeir sem eldri eru, en yfir 60% þátttakenda á aldrinum 18-39 ára lýstu sig hlynnta Borgarlínunni. Borgarlínan nýtur minnst stuðnings á meðal fólks á aldrinum 50-59 ára, en 41,5% þátttakenda á þeim aldri lýstu sig hlynnta.

Reykvíkingar eru hlynntari Borgarlínunni en íbúar í nágrannasveitarfélögum borgarinnar. 59,9% Reykvíkinga segjast hlynnt Borgarlínu en 49,3% íbúa nágrannasveitarfélaganna eru henni hlynntir. Austurland er eini landshlutinn þar sem fleiri segjast andvígir Borgarlínunni en hlynntir henni.

56,8% þeirra sem segjast hafa tekjur undir 400.000 krónum á mánuði eru hlynntir Borgarlínu, en 19,4% andvígir. Minnstur er stuðningur við Borgarlínu í hópi þeirra sem hafa mánaðartekjur á bilinu 400-549 þúsund kr., en einungis 45,5% þeirra lýsa sig hlynnta Borgarlínunni í skoðanakönnun Maskínu.

Mestur er stuðningurinn hinsvegar í hópi þeirra sem hafa tekjur á bilinu milljón til 1.199 þúsund kr. á mánuði, eða 60,1%. Flestir lýsa sig andvíga Borgarlínu í hópi þeirra sem hafa yfir 1.200 þúsund í tekjur á mánuði, eða 27,9%.

Þeir sem hafa háskólapróf eru líklegri til að lýsa sig hlynnta Borgarlínu en þeir sem minni menntun hafa, en 61% þeirra með háskólapróf sem tóku þátt í könnun Maskínu sögðust hlynntir. Einungis 43% þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi lýstu sig hlynnta og 46% þeirra sem hafa próf úr framhaldskóla eða iðnmenntun.

Niðurstöður skoðanakönnunarinnar í heild sinni má nálgast hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert