Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram í dag, en kosning hófst klukkan 10. Í prófkjörinu verður valinn leiðtogi Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Kjörstaðir eru opnir til klukkan 18.
Fimm frambjóðendur hafa gefið kost á sér, eða þau Áslaug María Friðriksdóttir, Eyþór L. Arnalds, Kjartan Magnússon, Viðar Guðjohnsen og Vilhjálmur Bjarnason.
Leiðtogaprófkjörið er opið öllum flokksbundnum sjálfstæðismönnum, 15 ára og eldri. Þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem ganga í flokkinn á kjördag, skulu þó hafa náð 18 ára aldri hinn 26. maí næstkomandi, þegar borgarstjórnarkosningar fara fram.
Kosið verður á fjórum stöðum í borginni, í Valhöll og félagsheimilum sjálfstæðisfélaganna í Árbæ, Breiðholti og Grafarvogi.
Ekki verður kosið í Hótel Sögu, en kjördeildir Vestur- og Miðbæjar eru í Valhöll.