Býr enginn í því sem er verið að hanna

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í borginni og …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í borginni og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ræddu m.a. húsnæðismálin í Kastljósi í kvöld. Skjáskot/Kastljós

„Þó að það sé verið að hanna íbúðir, þá býr engin í því sem er verið að hanna,“ sagði Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í þættinum Kastljós á RÚV í kvöld. Eyþór og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík, tókust m.a. um húsnæðisvandann og borgarlínuna í þættinum.

Einar Þorsteinsson umsjónarmaður þáttarins spurði Dag um það loforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar að fjölga íbúðum í borginni. „Þær [íbúðirnar] eru víða,“ svaraði Dagur. Unnið sé að hönnun á þriðja þúsund íbúða og borgin hafi lagt áherslu á að vinna með félögum sem ekki séu að einblína á hagnað af sölunni.  „Við vildum reisa 2.500-3.000 íbúðir á 3-5 árum og teljum okkar vera ári á undan áætlun með heildarpakkann.“

„Það eru hins vegar ekki byggðar nema nokkur hundruð íbúðir á ári,“ sagði Eyþór þá. „Það býr enginn í íbúðum sem er verið að hanna.“ Íbúðalánasjóður áætli hað þörf sé á um 11.000 íbúðum inn í kerfið og fjölgun húsnæðis sé minnst í Reykjavík. „Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni er meiri fjölgun á landsbyggðinni,“ sagði Eyþór og kvaðst vilja fjölga bæði lóðum og búsetuúrræðum.

Sagði hann skortinn búa til hátt verð og leiguverð sé hærra í Reykjavík en nágrannasveitarfélögum. „Fólk er að flytja í önnur sveitarfélög,“ sagði hann.

Reykjavík aldrei eftirsóttari

Því svaraði Dagur til að núverandi meirihluti hafi aldrei viljað hætta að hugsa um þá efnaminni. „Við höfum legið undir ámæli fyrir að úthluta ekki nógum lóðum,“ sagði hann og kvað RÚV hafa afsannað í einni frétt sinni að það væri rétt. „En það er líka rétt að Reykjavík hefur aldrei verið eftirsóttari og það á líka við um hjá ferðamönnum og það er ein ástæða þess að húsnæðisverð hefur farið upp.“

Eyþór sagði það þá dónalegt hjá Degi að segja að Sjálfstæðiflokkurinn vilji ekki hjálpa þeim sem minna mega sín. „Skortur bitnar á öllum,“ sagði hann. „Líka þeim sem geta ekki eignast ibúð. Það er eitthvað mikið að þegar Reykjavík er orðin 30% dýrari en Kópavogur.“

Borgarlínan og samgöngur voru einnig til umræðu og sagði Eyþór umferða- og samgönguvandann vera mikinn eftir átta ára valdatíð Dags. „Vegakerfið er í molum og borgin undir forystu Dags hefur tafið framkvæmdir.“ Sjálfstæðisflokkurinn vilji hins vegar fara í uppbyggingu á gatnakerfinu.

Breytti Hlemmi í mathöll með kampavíni

Dagur sagði hins vegar ekki hægt að takast á við fyrirsjáanlega fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu án þess að efla almenningssamgöngur. Því svaraði Eyþór til að borgarlínan væri framtíðarsýn. „En við þurfum lausnir á næstu fjórum árum.“ Sjálfur vilji hann efla strætó og laga leiðarkerfið.

„Meirihlutinn lofaði samgöngumiðstöð á BSÍ, en þangað gengur engin strætó í dag og svo breytti hann Hlemmi í mathöll með kampavíni,“ sagði Eyþór.

Dagur sagði útreikninga sérfræðinga hins vegar hafa sýnt að ekki sé hægt að halda áfram með sama hætti og nú, það sé verkefni sem borgin standi frammi fyrir ásamt nágrannasveitarfélögunum. „Það er ekki alls staðar hægt að bæta við stofnæðakerfið,“ sagði hann. Haldi byggðin áfram að þenjast út þá muni það sprengja umferðakerfið. „Það er búið að sýna fram á það.“

Borgarlínan ein og sér muni heldur ekki duga til. „Hún er samt lykillinn og hryggstykkið fyrir höfuðborgina,“ sagði Dagur. „Ef ekki er hægt að breyta ferðavenjum borgarbúa þá skiptir ekki máli hversu mikla stofnæðauppbyggingu er farið í, þá er samt verið að beina allir umferðinni inn á núverandi stofnæðakerfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert