„Einn hafði ekki eins gaman að þessu“

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

„Kjördæmavika þingmanna stendur yfir þar sem þeir hitta meðal annars forsvarsmenn opinberra stofnana. Ég hef, sem oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, verið að gera það sama. Þannig að utanríkisráðherra bauð mér að koma með á fund í Höfða í gær með borgarstjóra sem ég þáði. Starfsfólkið tók mjög vel á móti mér og það var gaman að hitta þarna margt fólk sem ég þekki. En það var hins vegar einn maður sem hafði ekki eins gaman að þessu.“

Þetta segir Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, í samtali við mbl.is, en hann hugðist sækja fund í Höfða í gær í boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sem sat fundinn þar sem þingmenn Reykvíkinga ræddu við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur. Eyþór segir Dag hafa beðið hann að yfirgefa húsið og fara eitthvað annað með þeim rökum að að öðrum kosti yrði að bjóða oddvitum fleiri stjórnmálaframboða í borginni.

„Ég varð auðvitað fúslega við þessu. Þetta er hins vegar ný upplifun fyrir bæði þingmennina, sem eru vanir því að sveitarstjórnarmenn standi saman við að gæta hagsmuna sveitarfélagsins síns, og síðan er þetta ekki sú reynsla sem ég hef fengið hjá öðrum embættismönnum sem ég hef hitt. Borgarstjóri Reykjavíkur er auðvitað embættismaður borgarinnar og hlutverk hans er auðvitað fyrst og fremst að ná sem breiðastri samstöðu um hagsmuni hennar. Þannig að þetta var óneitanlega eftirminnilegt.“

Ekki hefur náðst í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert