Hvorki Kjartani Magnússyni né Áslaugu Maríu Friðriksdóttur var boðið sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, samkvæmt heimildum mbl.is. Þeim mun hafa verið hafnað af kjörnefnd flokksins.
Kjartan vill aðspurður ekki tjá sig um það hvort hann hafi haft hug á að starfa áfram í borgarmálunum. Hann segist enn ekki hafa séð tillögu uppstillingarnefndar, en hún verður lögð fram á fimmtudag.
„Ég hef ekki séð tillöguna og hún hefur ekki verið formlega lögð fram, svo ég ætla ekkert að tjá mig um það fyrr en það gerist,“ segir Kjartan við mbl.is.
Eyþór Arnalds mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins. Hann segir í samtali við mbl.is að hann muni ekki tjá sig um uppstillingu listans fyrr en hann hafi verið samþykktur. Hann hvorki játar því né neitar að Kjartani og Áslaugu hafi verið hafnað af kjörnefndinni.
„Kjörnefnd hefur þetta hlutverk og horfir til margra sjónarmiða. Þetta er alltaf vandasamt hlutverk og ég sagði í byrjun að ég bæri virðingu fyrir störfum kjörnefndar. Ég veit að þetta er vandasamt og erfitt hlutverk, ekki alltaf öfundsvert, en mikilvægt,“ segir Eyþór.
Hann segir marga hafa viljað vera á listanum, mikill áhugi sé á framboðinu og að hann sé bjartsýnn fyrir vorið.
Kjartan hefur verið borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík allt frá árinu 1999, eða í tæp 19 ár. Áslaug hefur verið borgarfulltrúi frá árinu 2013, en áður var hún varaborgarfulltrúi frá árinu 2006.
Bæði sóttust þau eftir því að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum, sem fram fara hinn 26. maí næstkomandi.
Leiðtogaprófkjörið fór þó á þann veg að Eyþór varð hlutskarpastur, en hann hlaut 2.320 atkvæði í prófkjörinu, Áslaug hlaut 788 atkvæði og Kjartan 460 atkvæði til forystu.
Ekki náðist í Áslaugu Maríu við vinnslu fréttarinnar.