„Við eigum að hætta að vera leiðinlegi karlinn í partíinu“

Áslaug Friðriksdóttir.
Áslaug Friðriksdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að skortur sé á umburðarlyndi fyrir mismunandi skoðunum innan flokksins. Hún segir að flokkurinn taki þá áhættu að höfða til þrengri hóps í komandi sveitarstjórnarkosningum. „Við eigum að hætta að vera leiðinlegi karlinn í partíinu.“

Þetta kemur fram í viðtali við Áslaugu í Mannlífi. 

Áslaug verður ekki meðal fram­bjóð­enda flokks­ins í kom­andi ­kosn­ing­um. Henni var ekki boðið sæti á listanum eftir að hafa lotið í lægra haldi gegn Eyþóri Arnalds í oddvitakjörinu.

Hún segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með þau vinnubrögð sem áttu sér stað við uppstillingu listans. Um leið og það hafi verið tekin ákvörðun um að fara ekki í almennt prófkjör heldur oddvitakjör þá vissi hún að útkoman yrði tvísýn fyrir sig. 

Meðal þeirra mála sem Áslaug hefur talað fyrir er þétting byggðar auk þess sem hún hefur lýst vilja til að starfa með meirihlutanum í borginni sem og ræða um borgarlínuna. Hún tekur fram, að hún sé ekki sú eina sem sé á þess­ari mál­efna­línu og viti að meðal nýrra fram­bjóð­enda sé fólk sem er sam­mála henni um margt.

„Ég vona að þeir fram­bjóð­endur fylgi sann­fær­ingu sinni og láti ekki þagga niður í sér,“ segir Áslaug.

Hún segir ennfremur í viðtalinu, að hún hafi orðið meira vör við þá kröfu að allir þurfi að hafa sömu skoð­anir til að vera gjald­gengir innan flokks­ins í Reykja­vík.

„Ég tel að í gegnum tíð­ina hafi það verið einn helsti styrk­leiki flokks­ins að hafa umburð­ar­lyndi fyrir blæ­brigðum skoð­ana innan hans. Þetta umburð­ar­lyndi hefur verið ein for­senda þess að flokk­ur­inn hefur verið jafn stór og raun ber vitni. Skortur á þessu umburð­ar­lyndi mun ekki stækka heldur þvert á móti minnka flokk­inn í Reykja­vík,“ segir Áslaug í samtali við Mannlíf.

Hún segir jafnframt að sjálfstæðismenn eigi að taka umræðu um ný þróunarverkefni opnum örmum. „Við eigum að hætta að vera leiðinlegi karlinn í partíinu.“ Flokkurinn eigi að taka þátt, hefja samræður og taka stjórn á verkefnum í stað þess að tala þau niður. Þetta sé spurning um viðhorf. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert