Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, kynnti framboðslista flokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Norræna húsinu í dag. Inga sagðist stolt af listanum og tilkynnti að kjörorð flokksins í kosningunum verður „fólkið fyrst“. Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur leiðir listann og er Karl Berndsen hárgreiðslumeistari í öðru sæti listans.
Áherslumál flokksins verður staða þeirra sem verst eru settir í borginni að sögn Kolbrúnar.
„Ég hef upplifað það í starfi mínu sem sálfræðingur að hitta fólk sem er nánast á vergangi og með þessum flokki höfum við tækifæri til þess að forgangsraða upp á nýtt. Öllum þarf að líða vel í borginni og allir þurfa þak yfir höfuðið“ segir hún.
Aðspurð um hvernig skal ná þessu markmiði segir Kolbrún að „þegar það kemur að stóru peningaspurningunni, þá er ljóst að það eru þessu stóru fjárfestingar og við viljum raða þessum verkefnum neðar. Forgangurinn er húsnæði fyrir alla“. Hún bætir við að einnig sé þörf á að taka til í rekstri borgarinnar.
Kolbrún tók áður þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og gaf meðal annars kost á sér í prófkjörum flokksins í Reykjavík 2006 og 2009. um fyrri stjórnmálastörf sín segist Kolbrún ekki eiga samleið með Sjálfstæðisflokknum þar sem henni hafi ekki fundist hljómgrunnur fyrir málefni þeirra sem verst hafa það. Hún segir þetta þó ekki útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar.
1. sæti, Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
2. sæti, Karl Berndsen, hárgreiðslumeistari
3. sæti, Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands
4. sæti, Þór Elís Pálsson, kvikmyndaleikstjóri
5. sæti, Halldóra Gestsdóttir, hönnuður
6. sæti, Rúnar Sigurjónsson, vélvirki
7. sæti, Hjördís Björg Kristinsdóttir, sjúkraliði
8. sæti, Þráinn Óskarsson, framhaldsskólakennari
9. sæti, Friðrik Ólafsson, verkfræðingur
10. sæti, Birgir Jóhann Birgisson, tónlistarmaður