Alls segjast 43 prósent þeirra Reykvíkinga sem afstöðu taka í nýrri könnun, sem Fréttablaðið og frettabladid.is gerðu, vera annaðhvort mjög óánægð eða frekar óánægð með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á kjörtímabilinu.
Þá segjast 29 prósent vera mjög ánægð eða frekar ánægð með störf hans og 28 prósent segjast hvorki vera ánægð né óánægð. Þegar svörin eru skoðuð í heild sést að 6 prósent eru mjög ánægð með störf Dags, 19 prósent eru frekar ánægð og 25 prósent eru hvorki ánægð né óánægð. Þá eru 15 prósent frekar óánægð og 23 pró-sent eru mjög óánægð.
Alls tóku 89 prósent afstöðu til spurningarinnar en 5 prósent sögðust óákveðin og 6 prósent neituðu að svara spurningunni. Dagur er hins vegar sá einstaklingur sem flestir nefna þegar þeir eru spurðir hvern þeir vilji sjá sem næsta borgarstjóra í Reykjavík. Þegar einungis eru skoðuð svör þeirra sem afstöðu taka sést að 45 prósent nefna Dag, 30 prósent nefna Eyþór Arnalds, 4 prósent nefna Líf Magneudóttur og 4 prósent Vigdísi Hauksdóttur.