Reyndu að sækja Skuggakosningaatkvæðin

Frambjóðendur til borgarstjórnar ræddu við nemendur Fjölbrautaskólans í Ármúla í …
Frambjóðendur til borgarstjórnar ræddu við nemendur Fjölbrautaskólans í Ármúla í hádeginu í dag. mbl.is/Hari

„Ég er gríðarlega ánægður með Skuggakosningarnar í framhaldsskólunum, mér finnst þetta vera að breyta áhuga fólks á framhaldsskólaaldri og hann er að kvikna líka fyrr, þetta startar svolítið umræðunni inni í skólunum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is eftir framboðsfund vegna Skuggakosninga í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, sem fram fór í hádeginu í dag.

Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni, var einnig til svara á fundinum og hann sagði að spurningar nemenda hefðu verið góðar og gagnlegar. „Við höfum verið að fara á fundi í framhaldsskólunum í þessu átaki #ÉgKýs og það er greinilegt á spurningunum sem koma að ungt fólk er ekki öðruvísi heldur en annað fólk í borginni, það spyr málefnalega,“ sagði Eyþór við mbl.is að fundi loknum.

Á fundinum svöruðu fulltrúar níu framboða til borgarstjórnarkosninga spurningum nemenda FÁ og það var ýmislegt sem á nemendunum brann, en meðal annars var spurt um afstöðu frambjóðandanna til mönnunarvandamála í leik- og grunnskólum í borginni, húsnæðismála, fíknivanda og geðheilsu ungs fólk, styttingu vinnuvikunnar og samgöngumála.

Nokkuð skýrar línur mynduðust á milli fulltrúa núverandi meirihluta í borgarstjórn og Viðreisnar annars vegar og fulltrúa annarra framboða hinsvegar þegar rætt var um húsnæðismálin. Svipað var einnig uppi á teningnum er frambjóðendurnir ræddu um samgöngumál.

Allir frambjóðendurnir svöruðu því til að hækka ætti laun grunnskóla- og leikskólakennara til að fá fleiri til starfa og margir minntust á bæta ætti vinnuumhverfið í skólunum og efla faglegt starf innan þeirra.

Nemendur við FÁ spurðu frambjóðendur út í stefnumál þeirra.
Nemendur við FÁ spurðu frambjóðendur út í stefnumál þeirra. mbl.is/Hari

Diljá Ámundadóttir, sem skipar 3. sætið á lista Viðreisnar sagði að hún vildi rekstrarstjórnendur yrðu ráðnir inní skólana, þannig að skólastjórar þyrftu ekki sífellt að vera „með nefið ofan í Excel-skjali.“ Þá gæfist skólastjórnendum meiri tími til þess að leiða faglegt skólastarf og skapa kennurum betra vinnuumhverfi.

Eyþór Arnalds sagðist vilja „flytja fjármagnið úr stjórnkerfinu inn í skólana.“ Engin mannekla væri í Ráðhúsi Reykjavíkur, en mannekla væri í leikskólunum. Vigdís Hauksdóttir, borgarstjóraefni Miðflokksins tók undir með Eyþóri og sagði enn fremur að hún hefði áhyggjur af kulnun í starfi meðal kennara, sem hún rekur til of mikils álags á þá. „Skóli án aðgreiningar er ekki að virka,“ sagði Vigdís.

Hægt að taka peningana frá auðvaldinu

Vésteinn Valgarðsson fulltrúi Alþýðufylkingarinnar sagði hann efaðist um að hægt væri að taka peningana út úr stjórnkerfinu eins og Eyþór legði til. Hins vegar væri hægt að taka þá frá auðvaldinu, að sögn Vésteins og útskýrði hann síðan stefnu flokksins um að hámarkslaun væru aldrei hærri en sem nemur tvöföldum lægstu launum.

Nokkuð skýrar línur voru á milli áherslna fulltrúa núverandi meirihluta …
Nokkuð skýrar línur voru á milli áherslna fulltrúa núverandi meirihluta og Viðreisnar annars vegar og annarra framboða hins vegar þegar rætt var um bæði samgöngumál og húsnæðismál. mbl.is/Hari

Fulltrúar núverandi meirihluta í borginni, Dagur B. Eggertsson og Þorsteinn V. Einarsson sem skipar 3. sæti hjá Vinstri grænum lögðu báðir áherslu á að framkvæma þyrfti þá aðgerðaáætlun í leikskólamálum sem nýlega var lögð fram. Þorsteinn sagði þær tillögur hafa verið unnar af fagfólki og að nauðsynlegt væri að tryggja pólitískan vilja til þess að framkvæma þessar aðgerðir.

Þéttingarstefna eða aukin uppbygging á nýjum svæðum?

„Ég held því miður miðað við núverandi ástand elskurnar eigiði eftir að vera heima hjá mömmu og pabba næstu 20 til 30 árin,“ sagði Karl Berndsen, fulltrúi Flokks fólksins er hann svaraði spurningu um hvernig væri hægt að tryggja það að ungt fólk gæti keypt húsnæði.

Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata, Dagur borgarstjóri, Dilja frá Viðreisn og Þorsteinn frá VG voru öll á þeirri línu að halda ætti áfram að byggja borgina upp inn á við og leggja áherslu að úthluta lóðum til félaga sem vilja byggja upp ódýrt leiguhúsnæði. Dóra Björt sagði meðal annars að framleiðni í borginni stæði uppbyggingu fyrir þrifum og að fjölga þyrfti iðnmenntuðum til að hægt væri að byggja upp hraðar.

Hin framboðin lögðu mikla áherslu á að úthluta þyrfti fleiri lóðum og voru svæði eins og Örfirisey, Úlfarsárdalur og Keldur sérstaklega nefnd í því samhengi. Eyþór Arnalds sagði húsnæðisstefnu meirihlutans hafa mistekist. Hann segist vilja byggja fjórfalt meira á ári hverju en gert hefur verið á kjörtímabilinu.

Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Vésteinn Valgarðsson, Dagur B. Eggertsson …
Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Vésteinn Valgarðsson, Dagur B. Eggertsson og Þorsteinn V. Einarsson á fundinum í dag. mbl.is/Hari

Snædís Karlsdóttir sem er í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins sagði nauðsynlegt að byggja miklu meira og víðar en verið er að gera og Vigdís Hauksdóttir sagði „þrengingarstefnu“ meirihlutans hafa skapað gríðarlegan íbúðaskort í Reykjavík. Leggur Vigdís til að byggt verði deilihúsnæði fyrir ungt fólk, þar sem 6-8 manns deili saman íbúðum.

Vésteinn hjá Alþýðufylkingunni vill byggja „offramboð“ af húsnæði í borginni, því að þá myndi verðið ekki bara lækka heldur yrðum við Íslendingar einnig tilbúin að mæta húsnæðisvanda sem gæti skapast vegna náttúruhamfara á borð við eldgosið í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert