„Við viljum sjá faglegri vinnubrögð innan stjórnsýslunnar yfir höfuð. Okkur finnst vanta á gagnsæi og við tölum um rafrænni Garðabæ, þar sem þjónusta og upplýsingar eru færðar nær íbúunum,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir, sem leiðir Garðabæjarlistinn til sveitarstjórnarkosninga.
Listinn kynnti stefnumál sín síðdegis í dag.
Að sögn Söru vill Garðabæjarlistinn virkja lýðræðið í Garðabæ og leggja áherslu á jafnréttismál og bætta velferðarþjónustu bæjarins. Einnig þurfi að byggja upp fjölbreyttara húsnæði í bænum til þess að ungt fólk sem vilji búa í sveitarfélaginu geti sest þar að.
„Við viljum að Garðabær verði fjölbreyttara samfélag og til að tryggja það verðum við einhvern veginn að styðja við að ungt fólk komist aftur heim. Staðan núna er þannig að ungt fólk sem er í kringum okkur, býr í foreldrahúsum enn þá, komið með fjölskyldu og hefur ekki tök á því að kaupa sér og leigumarkaðurinn er mjög takmarkaður,“ segir Sara.
Listinn ætlar sem áður segir að leggja áherslu á að bæta velferðarþjónustu bæjarins.
„Við sjáum gríðarleg tækifæri í að gera miklu miklu betur. Garðabær er mjög stöndugt sveitarfélag og í okkar augum á þetta ekki að vera stórmál, að vinna að samfélagi fyrir alla.“