Tap ef ekki væri fyrir sölu eigna

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Skuldir borgarsjóðs Reykjavíkurborgar hafa vaxið um 15 milljarða þrátt fyrir góðærið samkvæmt nýjum ársreikningi borgarinnar. Tap væri á rekstri hans ef ekki væri fyrir mikla eignasölu sem greinilega hefur verið sópað út rétt fyrir kosningar.

Þetta segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, inntur eftir viðbrögðum við ársreikningi Reykjavíkurborgar sem kynntur var í dag. Eyþór minnir á í þessu sambandi að ekki sé hægt að selja umræddar eignir nema einu sinni. Þannig sé ekki um að ræða hagnað sem hægt sé að gera ráð fyrir áfram á næstu árum.

„Fyrir það fyrsta eru skuldir borgarsjóðs að vaxa um 15 milljarða króna þrátt fyrir góðærið. Í annan stað er söluhagnaðurinn meiri en hagnaðurinn. Ef ekki væri fyrir hann þá væri bókað tap. Það er bara hægt að selja þessar eignir einu sinni þannig að það er greinilegt að það var verið að sópa út eignasölu rétt fyrir kosningar. Það sést bara á því að söluhagnaðurinn er meiri nú en verið hefur,“ segir Eyþór.

„Síðan er það þriðja að það er verið að endurmeta eignir Félagsbústaða og Orkuveitunnar. Þetta endurmat eigna er um 8 milljarðar króna sem er bókað sem hagnaður þrátt fyrir að ekki sé búið að selja eina einustu íbúð. Þannig að þó þetta líti allt vel út er raunveruleikinn sá að það er minna inni á bankabókinni og skuldir hafa hækkað um 15 milljarða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert