„Vesturbæjaríhaldið“ útdautt?

Kjósendur í Vesturbænum virðast frekar hallast að Samfylkingunni meðan íbúar …
Kjósendur í Vesturbænum virðast frekar hallast að Samfylkingunni meðan íbúar austar í borginni hallast að Sjálfstæðisflokknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hverfaskiptingin er mjög athyglisverð, en þetta er ekki ný þróun,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, um niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar, sem gerð var dagana 23.-25. apríl fyrir Morgunblaðið og greint frá í gær. Nokkuð skýr munur er á fylgi flokkanna eftir hverfum, á þann veg að meirihlutaflokkarnir þrír, Samfylking, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Píratar sækja fremur stuðning sinn til Miðbæjar og Vesturbæjar, á meðan Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins höfða frekar til kjósenda í úthverfunum.

Miðflokkurinn með 3% í Mið- og Vesturbæ en 11,4% í úthverfum

Þannig hugðust 38,4% þeirra kjósenda sem bjuggu í Miðbæ og Vesturbæ kjósa Samfylkinguna, en einungis 19,6% Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi þessara tveggja flokka snýst hins vegar við eftir því sem austar er farið í borginni. Fylgi Miðflokksins vex að sama skapi eftir því sem farið er lengra til austurs, þar sem einungis 3% kjósenda í Mið- og Vesturbæ hyggjast kjósa flokkinn, en hann nýtur stuðnings um 11,4% kjósenda í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi.

Ólafur segir þessa þróun hafa verið að koma fram með skýrari hætti síðustu árin. Niðurstöðurnar nú staðfesti til dæmis þá þróun sem síðasta könnun Félagsvísindastofnunar, sem unnin var í lok marsmánaðar hafi gefið til kynna. „Það sem okkur gamla fólkinu finnst hins vegar athyglisverðast er að gamla „Vesturbæjaríhaldið“ virðist útdautt og gengur miklu verr en KR!“ segir Ólafur kíminn.

Svipuð þróun frá 1994

Hann segir eina hugsanlega skýringu á því hvers vegna úthverfin mælist svo á skjön við Mið- og Vesturbæ Reykjavíkur sé að þar sé fólk pirraðra yfir vandræðum í samgöngumálum og þeim umferðartöfum sem nú séu daglegt brauð í Reykjavík, jafnvel þó að þær þyki smávægilegar á mælikvarða annarra ríkja.

„Hin skýringin er að það sem hefur verið einkennandi fyrir Reykjavík og nágrenni, alveg frá 1994 en þó miklu meira á þessari öld, er að í kjarna Reykjavíkur vinna vinstriflokkarnir á. Þetta er mynstur sem við sjáum í mörgum borgum víðs vegar um Evrópu,“ segir Ólafur og bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið úr þeirri stöðu að stefna alltaf að því að fá meirihluta í borginni og niður í um 25-30% fylgi. „Þetta er mikil breyting, en á sama tíma hefur hann haldið sínu í Kraganum, í Garðabæ, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ, haldið tiltölulega sterkri stöðu í Hafnarfirði og Kópavogi, þannig að þessi vinstribylgja síðustu tvo áratugi í kjarna Reykjavíkur hefur ekki átt sér stað í bæjunum í kring.“ Ólafur tekur fram að ekki sé hægt að fullyrða um neitt án frekari rannsókna, en engu að síður sé sá möguleiki fyrir hendi að íbúarnir í ytri hverfum Reykjavíkur séu að þessu leyti keimlíkari nágrannasveitarfélögunum en miðbænum og Vesturbænum.

Hægt er að lesa nánar um niðurstöður könnunarinnar í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert