Píratar vilja stytta vinnuvikuna

Píratar kynntu stefnumál sín í borginni í dag.
Píratar kynntu stefnumál sín í borginni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Píratar vilja tryggja öllum borgarbúum húsnæði á viðráðanlegu verði og leggja áherslu á Borgarlínu með því að styðja betur við hana en gert er í núverandi skipulagsáætlun. Þá vilja þeir stytta vinnuvikuna og auka traust á stjórnmálum, lýðræði og stofnunum samfélagsins.

Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi Pírata í Reykjavík í dag þegar flokkurinn kynnti stefnumál sín fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Dóra Björt Guðjónsdóttir, er oddviti Pírata í Reykjavík. Flokkurinn vill vera málsvari ungs fólks og auka áhrif og lífsgæði ungs fólks. „Við viljum gera Reykjavík að borg þar sem ungt fólk vill festa rætur,“ segir í tilkynningu.

Húsnæðismál, samgöngumál, umhverfismál og skóla- og frístundamál eru ofarlega á stefnuskrá flokksins. Borgarlínan er í forgrunni og vill flokkurinn að íbúar í öllum hverfum borgarinnar hafi raunhæft val um vistvæna samgöngumáta.

Píratar vilja einnig fjölga grænum svæðum, leggja áherslu á fjölbreytt lífríki i höfuðborginni og snjallar lausnir í umgengni og þrifum.

Aðgengismál er einnig að finna í stefnumálum Pírata. „ Afnema þarf skerðingu fjárhagsstuðnings vegna tekna maka og vinna markvisst að því að útrýma fátæktargildrum í kerfinu. Það þarf að standa vörð um borgaraleg réttindi og mannréttindi jaðarhópa og leyfa öllum að hafa aðkomu að ákvarðanatöku sem þau varðar,“ segir í tilkynningu.

Þá vill flokkurinn leggja áherslu á fjölskylduvænt samfélag. „Píratar leggja ríka áherslu á styttingu vinnuvikunnar en markmiðið er að sá bolti leiði af sér minni þörf fyrir langa dvöl barna hjá dagforeldrum, leikskólanum eða í frístund.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert