Guðrún Erlingsdóttir
„Það er ný aðferð að leggja krossapróf fyrir frambjóðendur á opnum fundi. Alla vega hef ég ekki séð það gert áður,“ segir Jón Ingi Gíslason, formaður Kennarafélags Reykjavíkur sem stóð fyrir baráttufundi kennara með frambjóðendum í Reykjavík í Laugalækjarskóla í gærkvöldi.
„Það er eðlilegt þegar kennarar eru annars vegar að leggja fyrir krossapróf. En að öllu gamni slepptu þá notuðum við þessa aðferð til þess að kalla fram einhverja punkta sem fundargestir gætu spurt nánar út í og frambjóðendur útskýrt svör sín betur,“ segir Jón Ingi sem vonar að frambjóðendur hafi fengið gott veganesti frá fundargestum.
Kvennahreyfingin ákvað eftir ítarlega yfirferð að þiggja ekki boð um þátttöku á fundinum í ljósi þess að Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambandsins sem flutti opnunarerindi fundarins, tók ekki áskorun um að víkja sem formaður Kennarasambandsins vegna ásakana um blygðunarsemisbrot.