Sundabraut og lækkun útsvars á dagskrá

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á blaðamannafundi …
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á blaðamannafundi í Marshall-húsinu. mbl.is/​Hari

Sjálfstæðisflokkurinn hyggst setja Sundabraut aftur í samgönguáætlun og kanna möguleika á einkaframkvæmd sem flýta muni fyrir verkefninu. Einnig hyggst flokkurinn lækka útsvar í Reykjavík úr 14,52% í 13,98% í fjórum þrepum á fjórum árum. 

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í Marshall-húsinu á Granda í dag. Fram kom í máli Bjarna að kjöraðstæður væru til lækkunar á álögum nú.

Í áætlunum sínum um Sundabraut gerir Sjálfstæðisflokkurinn ráð fyrir því að unnið verði að hagkvæmustu útfærslu Sundabrautar í samstarfi við Vegagerðina.

„Það er fagnaðarefni að Sjálfstæðisflokkurinn stígi fram fyrir kosningar á sveitarstjórnarstiginu með skýra sýn sem tengist tengingum við höfuðborgina. Við finnum fyrir því um allt land að það er kallað eftir því frá sveitarfélögum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu að tengingar til og frá borginni séu styrktar,“ sagði Bjarni um áformin um Sundabrautina.

Keldnalandið verði byggt upp

Sjálfstæðisflokkurinn hyggst koma upp íbúabyggð á landi ríkisins við Keldur, en einnig verður gert ráð fyrir atvinnustarfsemi þar auk þess sem að stofnunum verði fundinn staður. 

„Þetta þrennt fer vel saman, þetta svæði er yfir 100 hektarar. Reykjavík hefur verið að þétta byggð á dýrum stöðum, þarna er tækifæri til að þétta á hagkvæmum stað,“ sagði Eyþór og nefndi einnig að stofnanir hefðu horfið frá borginni til annarra sveitarfélaga.

„Það er enginn skortur á landi til að leysa þann vanda sem hefur birst okkur hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur einfaldlega skort sýnina til þess. Aðalatriðið fyrir borgarbúana er að það sé sýn til að opna fyrir nýja búsetumöguleika fyrir þá,“ sagði Bjarni.

Einnig voru lagðar fram hugmyndir um fækkun ljósastýrðra gatnamóta í Reykjavík og styttingu ferðatíma í strætisvögnum með sérakreinum. Tilraunaverkefni um samflot í bílum á sérakreinum var einnig meðal hugmynda Sjálfstæðismanna.

Fram kom að brýnast væri að ráðast í bætur á gatnamótum við Bústaðaveg, Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut og Grensásveg enda væru þessi gatnamót meðal þeirra hættulegustu á landinu. Að því er fram kom í máli Eyþórs er kostnaður við lausnirnar um einn til tveir milljarður á hver gatnamót. 

„Þau taka ekki mikið landsvæði en munu leysa umferðarvandann að miklu leyti,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert