Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, segir opna stokka á Miklubraut munu greiða fyrir umferð og draga úr mengun. Flokkurinn hefur skoðað tillögu að slíkum mannvirkjum. Eyþór segir margt ávinnast með þeim.
Þannig verði ekki lengur ljósastýring á nokkrum fjölförnum og hættulegum gatnamótum. Á hann þar við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, Háaleitisbrautar og Grensásvegar og gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.
Eyþór segir útfærsluna kalla á minna landrými, kosta minna og hafa betri ásýnd. Með stuttum göngum og stokkum megi meðal annars nýta landhallann við gatnamótin við Háaleitisbraut og Grensásveg, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.