Borgarbúar munu kjósa um borgarlínu

Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds ræddu við blaðamann Morgunblaðsins …
Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds ræddu við blaðamann Morgunblaðsins um hin ýmsu kosningamálefni. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir borgarstjórnarkosningarnar á laugardaginn meðal annars snúast um borgarlínu. Hann er opinn fyrir hugmynd um fluglest. Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, segir húsnæðisvanda eiga þátt í að samkeppnishæfni borgarinnar hafi minnkað.

Dagur og Eyþór komu í viðtal á Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Fyrri hluti viðtalsins birtist í Morgunblaðinu í dag en hér kemur sá síðari.

Varasamar hugmyndir

Hugmyndir eru um að leggja fluglest í göngum frá Keflavíkurflugvelli að BSÍ. Hvað finnst ykkur um þá hugmynd?

„Hún hefur verið í skoðun af hálfu einkaaðila,“ segir Dagur. „Hugsunin er þá sú að tengja Keflavík við miðborgina. Við höfum verið opin fyrir því en það þarf auðvitað að koma í ljós hvort það sé raunhæft.“

Eyþór hefur næst orðið: „Ég myndi segja að þessar stóru hugmyndir sem eru í gangi um að flytja flugvöllinn í Hvassahraun, vera með fluglest til Keflavíkur, borgarlínu fyrir 70-100 milljarða og Miklubraut í stokk fyrir 20-30 milljarða séu varasamar á þann hátt að ef menn eru að bíða eftir stóra verkefninu þá klára þeir ekki málin á skynsamlegan hátt á meðan.“

Borgarlínan er umdeild. Meðal annars á að sækja fjármögnun með innviðagjöldum?

„Er það?“ spyr Dagur og grípur inn í spurninguna. „Ég held að hún sé ekki mjög umdeild. Ég held að hún sé eitthvað umdeild í pólitíkinni en ég held að þessi umræða hafi skilað því að það er mjög breið samstaða meðal fólks, alveg þvert á flokka um allt höfuðborgarsvæðið, um að þetta sé framtíðin.“

Ertu hlynntur því að leyfa borgarbúum að kjósa um þessa hugmynd?

„Já, það verður gert núna 26. maí.“

Þannig að kosningarnar snúast meðal annars um það?

„Já,“ segir Dagur.

Samkeppnishæfni borgarinnar

Fyrir nokkrum áratugum var mikið rætt um aðflutning fólks frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Mannfjöldatölur Hagstofu Íslands benda til að brottflutningur íslenskra ríkisborgara hafi að mestu haldið áfram á síðustu árum. Á annað þúsund fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu af landi brott en til landsins árin 2015-2018, sem er eitt mesta uppgangsskeið Íslandssögunnar. Annað dæmi er að árin 2015-2018 fjölgaði landsmönnum um 19.350, eða um 5,9%, en Reykvíkingum um 3.968, eða um 3,3%. Hvers vegna hefur borginni ekki gengið betur að laða að sér fólk á uppgangstímum? Hvernig ætlar þú sem borgarstjóri að stuðla að því að Reykjavík, og höfuðborgarsvæðið, verði samkeppnishæft við aðrar borgir í heiminum?

„Árið í fyrra var reyndar mesta vaxtarár í 30 ár í borginni. Hins vegar höfum við séð undanfarna áratugi að höfuðborgarsvæðið hefur þróast þannig að það fjölgar hraðar í nágrannasveitarfélögunum. Alveg frá 1960 hefur þetta verið almenna þróunin. En ég held að ástæðan fyrir því að þetta er að breytast og að Reykjavík er að taka ákveðna forystu sé að yngri kynslóðir, sem borgir eru að keppa um, eru að sækja í borgarumhverfi. Þær eru að flytja í borgir, annaðhvort hér í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðið, eða erlendis í borgir. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við séum að þróa lifandi, áhugaverða og fjölbreytta borg.“

Reykjavík öruggasta borgin

Dagur heldur áfram: „Borgir keppa að mörgu leyti á grundvelli lífsgæða. Þannig að lífsgæðaframkvæmdir, lífsgæðafjárfestingar og lífsgæðin í því hvernig við skipuleggjum og þróum hverfin okkar eru hlutir sem skipta verulegu máli. Þarna skiptir gott skólakerfi og öflug velferð miklu máli en líka hlutir eins og heilsusamlegt umhverfi, aðgangur að grænum svæðum, sundlaugarnar okkar, sem eru stundum vanmetið lífsgæðamál, og öryggi. Reykjavík er öruggasta borg sem þú getur komið til. Þetta eru allt hlutir sem skipta máli en líka öflugt og áhugavert atvinnulíf og tækifæri fyrir fólk sem vill stofna fyrirtæki eða ráða sig í spennandi vinnu. Og þess vegna skipta þessi atvinnutengdu verkefni, eins og þekkingarstarfsemin í Vatnsmýri, kvikmyndagerð í Gufunesi og þessi ótrúlega deigla sem hefur verið í nýstofnun fyrirtækja á undanförnum árum mjög miklu máli varðandi samkeppnishæfni borgarinnar. Ég held að það megi heldur ekki gleyma menningu í þessu sambandi. Áhugavert menningarlíf og lifandi borgarlíf, það er líka samkeppnishæfnismál.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Arnþór

Hrunið skýrir brottflutninginn

Þetta eru atriði sem flestir eru væntanlega sammála um að séu jákvæð. En hvers vegna hefur brottflutningurinn þá haldið áfram þrátt fyrir að laun hafi verið sögulega há, kaupmáttur sögulega mikill og svo framvegis?

„Við höfum í raun náð að snúa þessari þróun við. Það var þessi vöxtur í [íbúafjöldanum í] fyrra en ég held að á árunum eftir hrun skýrist brottflutningurinn meðal annars vegna kjara af ýmsu tagi. Fólk sem hafði flutt út hikaði við að koma til baka. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta fólk finni að það sé skýr framtíðarsýn, langtímahugsun og ákveðin staðfesta í að þróa borgina í rétta átt. Þess vegna skiptir máli að fólk viti að hverju það gengur varðandi þróun borgarinnar.“

Hluti af því að auka samkeppnishæfnina

Síðan var það seinni spurningin. Hvernig myndirðu sem borgarstjóri stuðla að því að Reykjavík og höfuðborgarsvæðið verði samkeppnishæft? Ertu kannski búinn að svara því?

„Já, öðrum þræði. Ég hef lagt mjög ríka áherslu á það í mínum störfum að vinna mjög náið með nágrannasveitarfélögunum, að líta á þetta sem eitt svæði, vegna þess að ef við ætlum að ná árangri verðum við að toga í sömu átt. Það hefur tekist með nýju svæðisskipulagi sem kallast mjög á við aðalskipulag Reykjavíkur og lýsir þróun höfuðborgarsvæðisins inn á við þar sem eru áhugaverð hverfi, áhugaverðir byggðakjarnar, þétting byggðar, öflugar samgöngur með borgarlínu, öflugri almenningssamgöngur og fjölbreyttir ferðamátar. Þetta er allt hluti af því að auka samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins.“

Hefur glatað samkeppnisforskotinu

„Má ég ekki bregðast við þessu?“ segir Eyþór.

„Það er ljóst af tölunum að Reykjavík hefur glatað samkeppnisforskorti sínu. Bæði er það þannig að fjölgun [íbúa] hefur verið hlutfallslega meiri á landsbyggðinni heldur en í Reykjavík. Það hefur ekki áður verið frá lýðveldisstofnun. Þannig að fólk hefur flutt annað. Við sjáum þetta á unga fólkinu okkar. Við getum séð þetta til dæmis á því að Íslendingum hefur fækkað í Reykjavík á síðustu fjórum árum. Sú fjölgun sem varð á síðasta ári er eingöngu erlent fólk sem hefur komið til að vinna hér. Við fögnum því að það komi en engu að síður er þetta vísbending um að fólk fari annað. Þá annaðhvort vegna þess að það þarf að fara eitthvað annað, vegna þess að það er svo dýrt að vera í Reykjavík, eða af því að það vill fara eitthvað annað af því að þjónustan er betri. Hver sem ástæðan er – hvort sem hún er að fólk neyðist til að fara frá Reykjavík eða að fólk vill fara annað, hefur Reykjavík glatað hlutverki sínu sem forystuafl. Við sjáum að húsnæðisskortur í Reykjavík er mikill. Húsnæðisverð hefur hækkað um 50%. Fasteignaskattar hafa hækkað um 50%. Samgöngurnar hafa þyngst. Það eru líka mikilvægir þættir í samkeppnisstöðu borgarinnar að fólk geti eignast íbúð og komist vel á milli staða.“

Húsnæðismálin númer eitt

Þá er það spurning fyrir þig, Eyþór. Slagorð Sjálfstæðisflokksins er „breytum borginni“. Það er hins vegar fátt að finna í stefnuskránni sem beinlínis virðist ætlað að auka samkeppnishæfni borgarinnar. Hvernig myndir þú sem borgarstjóri stuðla að því að Reykjavík, og höfuðborgarsvæðið, verði samkeppnishæft við aðrar borgir í heiminum?

„Við teljum að húsnæðismálin séu númer eitt. Að fólk geti eignast húsnæði. Það er mál númer eitt. Númer tvö er að fólk komist betur á milli staða, að samgöngurnar séu virkari. Þar höfum við ýmsar tillögur, bæði varðandi úrbætur í vegakerfinu og almenningssamgöngur. Fólk er lengur að komast milli staða en áður. Þegar þetta er talið sjáum við að samkvæmt nýjum tölum er fólk að eyða 25 klukkutímum meira í umferðinni að meðaltali [á ári] en fyrir sex árum. Ef við horfum á hlutfall úthverfanna sjáum við að fólk í Grafarvogi er að eyða um það bil einni vinnuviku lengur í umferðinni en fyrir sex árum. Þetta er atriði sem varðar samkeppnishæfni, að komast milli staða. Það er líka grundvallaratriði að geta eignast húsnæði eða leigt það á eðlilegu verði. Þetta er klárlega atriði sem varðar samkeppnishæfni. Skattar eru annað. Hér eru innheimtir hæstu skattar af launafólki á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum efla samkeppnishæfni borgarinnar með því að lækka þessar álögur.“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór

Eyþór vilji þenja út byggðina

Dagur óskar eftir því að fá að svara: „Það er ágætt að Eyþór nefnir dæmið af Grafarvoginum. Því ef við ræðum um þær lausnir sem teflt er fram í þessum kosningum höfum við markað stefnuna í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðina. Og leggjum mikla áherslu á borgarlínu og öflugri almenningssamgöngur á meðan Eyþór leggur áherslu á að þenja út byggðina án þess að fara í nauðsynlega innviðafjárfestingu að þessu leyti. Það mun þýða að umferðin sem mun skapast vegna uppbyggingar í Keldnalandinu, sem Eyþór talar mikið fyrir, mun bætast inn á Miklubrautina. Það þarf nefnilega borgarlínuna til þess að hugmyndir um þróun Keldnalandsins gangi upp. Þetta er einn af stóru veikleikunum í málflutningi Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum, að skipulagssýnin og samgöngusýnin ganga ekki upp saman.“

Umferðin stífluð á morgnana

Eyþór andmælir þessu: „Ég verð að bregðast við þessu. Ég var spurður um okkar mál en hann vill bregðast við líka. Það er lykilatriði að jafna skipulagið í borginni. Þegar við horfum á umferðina er hún stífluð inn í borgina á morgnana og stífluð út úr borginni síðdegis. Við tölum fyrir því að stofnanir og framtíðaruppbygging spítala, fyrirtækja og stofnana fari á Keldur. Það mun jafna umferðina og í dag er það svo að stofnanir hafa verið að fara í Kópavog. Það er líka spurning um samkeppnishæfni. Borgin þarf að hafa góðar lóðir fyrir fyrirtæki og stofnanir.“

Leggja áherslu á ráðstefnur

Eftir stöðugan uppgang í ferðaþjónustu er farið að hægja á vextinum og jafnvel rætt um tugprósenta samdrátt í vissum greinum. Gífurleg fjárfesting er fyrirhuguð í greininni, ekki síst í miðborg Reykjavíkur. Hvað mynduð þið gera sem borgarstjórar til að styrkja stöðu greinarinnar?

Dagur verður fyrri til svara.

„Reykjavík lítur á sig sem lykilhagsmunaaðila í ferðaþjónustu og hefur unnið náið með greininni síðustu ár. Við höfum lagt áherslu á að lengja lágönnina og axlirnar, þ.e.a.s. vor og haust, og gera Reykjavík að eftirsóknarverðum áfangastað allt árið um kring. Við höfum litið þannig á að það að efla ráðstefnu- og fundatengda ferðaþjónustu sé mjög mikilvægt til langs tíma. Vegna þess að þeir ferðamenn skilja mest eftir. Við höfum um leið viljað stemma stigu við því að hótelin byggist öll upp á einum stað. Þannig að við erum búin að setja hótelkvóta í Kvos, upp með Laugavegi og Hverfisgötu til þess að dreifa betur úr ferðamennskunni. Því að vöxturinn hefur verið mjög hraður. Við teljum að það séu allar forsendur fyrir sjálfbærri ferðaþjónustu í borginni. Að hún getið haldið styrk sínum, þótt það sé ekki óvænt að það hægi á þessum mikla vexti. En það er ekki síst tengt styrk krónunnar. Á það hefur verið bent.“

Reykjavík haldi í sérkenni sín

Eyþór tekur næstur til máls: „Ég þekki nú ferðaþjónustuna ágætlega. Hef starfað innan þeirrar greinar. Eitt af því sem ég tel mikilvægast er að Reykjavík haldi í og styrki sérkenni sín en missi þau ekki varðandi til dæmis byggingar og þjónustu. Ferðamenn eru komnir til að sjá Ísland og Íslendinga og við þurfum að gæta þess að ferðamannabúðir verði ekki allsráðandi. Það er eitt mál. Annað mál er að þjónusta við ferðamenn geti verið öflugri í öðrum hverfum en í miðborginni. Það mun bæði létta álagið á miðborginni og styrkja hverfin. Svo er tvennt sem má nefna í viðbót. Það er annars vegar að gæta þess að Airbnb ryðji ekki út íbúðahverfum. Það hefur orðið fækkun í miðborginni. Og svo að bílaleigubílar ryðji ekki burt stæðum og bílum íbúa. Það þarf allt að vera í sátt.“

Húsnæðismál, borgarlínan og atvinnumál eru meðal þess sem eru ofarlega …
Húsnæðismál, borgarlínan og atvinnumál eru meðal þess sem eru ofarlega í huga oddvitanna. mbl.is/Arnþór

Endurskilgreindu atvinnustefnuna

Hvað mynduð þið sem borgarstjórar gera til að stuðla að nýsköpun og nýjum atvinnuvegum í borginni?

„Eftir hrun endurskilgreindum við atvinnustefnu borgarinnar,“ segir Dagur. „Við ákváðum að sækja fram á nokkrum sviðum. Í fyrsta lagi þekkingartengdum greinum í náinni samvinnu við háskólana, Landspítalann og þekkingartengd fyrirtæki. Uppbyggingin sem hefur orðið og er í gangi í Vatnsmýri, til dæmis á Vísindagarðasvæði Háskóla Íslands, er í tengslum við uppbyggingu Landspítalans og annað er bein framlenging af því. Í öðru lagi ákváðum við að leggja áherslu á skapandi greinar. Þær hafa rutt sér mjög til rúms, til dæmis á Grandanum þar sem við höfum ekki leyft neina hóteluppbyggingu eða íbúðir.

Síðan erum við að þróa kvikmyndaþorp og þorp skapandi greina í Gufunesi. Þar hefur kvikmyndaiðnaðurinn komið sér fyrir, bæði Reykjavík Studios, fyrirtæki Baltasars Kormáks, og önnur fyrirtæki sem mynda þar klasa. Við sjáum fyrir okkur að leyfa þar íbúðir og að þar verði önnur tengd atvinnustarfsemi. Þannig að það er heilmikil nýsköpun sem tengist þessu. Síðan höfum við lagt áherslu á að koma betur til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Við erum að taka ferlana okkar í gegn í tengslum við snjallborgarverkefni, að rafvæða alla þjónustuferla borgarinnar […] Við höfum stutt við það og höfum í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands opnað nokkur frumkvöðlasetur í borginni. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því. En það er frumkvöðlasetur skapandi greina við Hlemm. Það er svo annað fyrir heilbrigðistækni í Vatnagörðum og við erum líka með svonefnt fablab í Breiðholti í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þannig að nýsköpun er og verður mikilvæg. Þetta tengist þeirri sýn að Reykjavík er í alþjóðlegri samkeppni við önnur borgarsvæði og þarf að ýta undir störf sem borga vel þannig að fólk geti búið sér gott líf. Nýsköðun er þar lykilatriði í þeim virðisauka sem þarf.“

Undirbúi skólana fyrir 21. öldina

Eyþór tekur næstur til máls.

„Reykjavík getur gert margt betur. Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja að skólarnir séu í stakk búnir til þess að undirbúa börnin okkar undir fjórðu iðnbyltinguna og 21. öldina. Það eru gríðarlegar breytingar fram undan varðandi atvinnu. Við eigum að byrja strax í skólunum þar sem borgin á að vera í fararbroddi. Bæði gagnvart öðrum sveitarfélögum og líka gagnvart öðrum löndum. Þar eru miklar breytingar og við sjáum að börn eru kannski 20 ár að fara í gegnum skólakerfið. Heimurinn verður allt öðruvísi árið 2038 heldur en hann er í dag. Við vitum það og eigum að bregðast við því. Þar kemur sköpunin inn. Ég kem nú kannski úr þessum tveimur geirum. Annars vegar nýsköpun með OZ og öðrum tæknifyrirtækjum, þekki hvernig það hefur verið að vinna í því umhverfi í Reykjavík, San Francisco og London.

Svo er það sköpunin. Ég held að sköpun sé gríðarlega mikilvæg og að börn fái jafnan rétt til þess að sinna sköpun. Bæði list, vísindum og atvinnusköpun, því allt er þetta sköpun. Svo er kannski annað sem má ekki gleyma, að Reykjavík á að vera nýsköpunarfyrirtæki. Nú er stjórnkerfið hins vegar þungt og byggt mikið á pappír og langt á eftir því sem við gerum kröfu um, eins og til dæmis varðandi flugfélög og annað þar sem við göngum að þjónustunni vísri. Tafatíminn í stjórnkerfinu er gríðarlegur. Það eitt að fá svör getur tekið 80 daga milli stofnana. Reykjavík þarf hér að setja staðalinn. Hún hefur ekki gert það og því myndi ég vilja breyta.“

Hafa einfaldað stjórnkerfið

Hvað viltu segja Dagur um það sem Eyþór segir að stjórnkerfið sé þungt og tafir miklar?

„Við höfum verið að einfalda stjórnkerfið. Og fækkuðum nefndum og erum að straumlínulaga mjög marga hluti. Þannig að við höfum að mörgu leyti verið leiðandi í því. Við höfum líka verið að gera tillögur til annarra stjórnvalda þar sem er flókið laga- og reglugerðarumhverfi, til dæmis á sviði skipulags- og byggingarmála.  Við höfum unnið þessi verkefni í samvinnu við byggingaraðila og þá sem koma að verkefnunum. Ég lít í raun ekki á þetta sem átaksverkefni. Þetta er sífellt verkefni. Rafvæðing stjórnsýslunnar er þar mjög ofarlega á blaði. Við samþykktum þjónustustefnu á þessu kjörtímabili þar sem rafvæðing í þjónustunni var sett í öndvegi. Þannig að það væri svona fyrsti viðkomustaður allra og við erum núna að taka hvern ferilinn á fætur öðrum í gegn til þess að ná þessu markmiði.“

Eyþór biður um orðið: „Það er ljóst af því sem Dagur segir að betur má gera. Þá er spurningin af hverju er ekki búið að gera það? Ég tel að það sé búið að setja mikið í stefnur og nefndir en núna sé kominn tími til að breyta stjórnkerfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert