Hörð kosningabarátta hefur verið háð í höfuðborginni í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og á laugardaginn dregur til tíðinda. Stærstu valkostir kjósenda virðast snúast um það hvort núverandi meirihluti hafi verið á réttri leið eða hvort breytinga sé þörf. Leiðtogar tveggja stærstu flokkanna, Dagur B. Eggertsson hjá Samfylkingu, og Eyþór Arnalds hjá Sjálfstæðisflokki, berjast um borgarstjórastólinn. Fjölmörg ný framboð keppast um að komast á kortið.
Gjörbreytt sviðsmynd blasir við kjósendum frá því fyrir fjórum árum. Borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23 eftir kosningar og nú eru tvöfalt fleiri framboð en síðast. Að auki hefur mikil endurnýjun verið á framboðslistum flestra flokka.
Alls bjóða 16 flokkar fram til borgarstjórnar að þessu sinni. Þeir eru: Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin, Flokkur fólksins, Höfuðborgarlistinn, Sósíalistaflokkur Íslands, Kvennahreyfingin, Miðflokkurinn, Borgin okkar – Reykjavík, Píratar, Alþýðufylkingin, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Karlalistinn og Frelsisflokkurinn.
Núverandi meirihluti samanstendur af Samfylkingu, Bjartri framtíð, Pírötum og VG. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, hefur verið borgarstjóri síðustu fjögur ár.
Samkvæmt skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið og birt var í gær fá átta framboð fulltrúa kjörna í borgarstjórn. Samfylkingin fengi átta, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Píratar fengju tvo hvor sem þýðir að núverandi meirihluti héldi velli ef þetta yrðu niðurstöðurnar. Raunar er það svo að næsti maður inn væri níundi borgarfulltrúi Samfylkingar.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi sjö borgarfulltrúa kjörna samkvæmt könnuninni en Miðflokkurinn, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn og Framsókn fengju einn fulltrúa hver.
Fjölmörg mál hafa verið til umræðu í aðdraganda kosninganna í Reykjavík. Borgarbúar hafa skipst á skoðunum um skóla- og leikskólamál en yfirvöldum hefur til dæmis verið legið á hálsi að hafa ekki skapað betri aðbúnað fyrir kennara og umgjörð um skólastarfið. Þá hefur verið gagnrýnt að viðhaldi og þrifum hafi ekki verið sinnt sem skyldi í borginni, svifryksmengun fari til að mynda upp úr öllu valdi á stundum.
Stóru álitaefnin virðast þó snúa að skipulags- og húsnæðismálum og samgöngumálum. Núverandi borgarstjórn hefur einbeitt sér að þéttingu byggðar síðustu ár, skipulagt nýbyggingar í grónu byggingarlandi í stað þess að skipuleggja ný hverfi. Þessi þróun virðist hafa gengið hægar en margir vilja og fyrir vikið hefur ekki reynst auðvelt að anna húsnæðiseftirspurn. Þetta snýr sérstaklega að minni íbúðum fyrir ungt fólk og þá efnaminni.
Samgöngumál hafa verið borgarbúum sérstaklega hugleikin að undanförnu. Yfirvöld horfa til framtíðar með borgarlínu en hafa sömuleiðis boðað að Miklubraut verði lögð í stokk. Sjálfstæðisflokkurinn kveðst vilja annars konar lausn á Miklubrautinni, þar á meðal mislæg gatnamót og hringtorg auk opinna stokka. Þá vill flokkurinn setja Sundabraut aftur á áætlun.
„Stóru málin í Reykjavík eru samgöngumál og húsnæðismál auk þeirrar þjónustu sem borgin veitir, svo sem skóla- og leikskólamál,“ segir Eva H. Önnudóttir stjórnmálafræðingur.
Hún segir að baráttan hafi að miklu leyti til snúist um tvo stærstu flokkana, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk. „Þetta eru turnarnir tveir. Samfylkingin stillir upp sínu starfi síðustu fjögur ár og vill halda því áfram en Sjálfstæðisflokkur sækir að henni. Stærsti flokkurinn mun leiða borgarstjórn, hvoru megin sem það lendir.
Eva segir að miðað við skoðanakannanir muni nýir flokkar koma mönnum að í borgarstjórn. Hún kveðst ekki hafa áhyggjur af því að fjölgun framboða muni fæla kjósendur frá, eins og einhverjir hafi lýst áhyggjum af.
„Það er athyglisvert að það er nokkurn veginn hægt að skipta þessum flokkum í tvo hópa, hægri og vinstri. Þegar þú ert með líka flokka eins og Framsókn og Miðflokkinn þá getur atriði eins og það hver leiðir listann farið að hafa mikil áhrif. Þetta verði því meira í átt að persónukjöri en áður, en það hefur hingað til ekki verið sterkt hér. Þá fer fólk líka mögulega að huga að því hversu mikla möguleika viðkomandi flokkur á að ná inn manni áður en það ráðstafar atkvæði sínu.“
Eva segir aðspurð að kosningabaráttan hafi verið með hefðbundnum hætti og hafi mótast af málefnum.
„Ég held að þessi kosningabarátta hafi verið mjög týpísk fyrir sveitarstjórnarkosningar. Það hafa ekki verið neinar stórar vendingar og engir stórir skandalar. Það er verið að kjósa um stefnu í hefðbundnum en mikilvægum málum og því hefur þetta verið svolítið þurrt og litlaust. Það má líka alveg líta á það sem kost.“