Mismunandi fylgi framboðslistanna í Reykjavík eftir borgarhlutum er enn mjög áberandi í lokakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir borgarstjórnarkosningarnar á laugardaginn. Könnunin var birt hér í blaðinu í gær.
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur langtum meira fylgis í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi en aðrir flokkar. Þar ætla um 40% íbúa að kjósa flokkinn en meðalfylgi hans í borginni er 26,3%. Fylgi Samfylkingarinnar er langmest í Miðbæ og Vesturbæ, 39%. Meðalfylgi flokksins í borginni er 31,8%.
Í könnuninni er fylgi framboðslistanna greint eftir fjórum borgarhlutum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er einnig yfir meðaltali, 28,3%, í Árbæ, Norðlingaholti og Breiðholti. Aftur á móti er það undir meðaltali í Miðbæ og Vesturbæ, þar sem það er aðeins 18,6%, og í Hlíðum, Laugardal og Háaleitis- og Bústaðahverfi, þar sem það er 22%.
Þessu er öfugt farið hjá stærsta flokknum í Reykjavík, Samfylkingunni. Auk Miðbæjar og Vesturbæjar er fylgi hennar yfir meðaltali í Hlíðum, Laugardal og Háaleitis- og Bústaðahverfi, þar sem það er 36,5%. Fylgið er undir meðaltali í Árbæ, Norðlingaholti og Breiðholti, 24,9%, og í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi, þar sem það er 25,3%.
Ef skoðað er fylgi annarra framboða eftir borgarhlutum kemur í ljós að Píratar, VG og Sósíalistaflokkurinn eiga eins og Samfylkingin mest fylgi í Miðbæ og Vesturbæ. Fylgi Pírata þar er 10,8%, fylgi VG 10,1% og Sósíalistaflokksins 6,9%. Miðflokkurinn hefur mest fylgi í Árbæ, Norðlingaholti og Breiðholti, 8%. Fylgi Viðreisnar er mest í Hlíðum, Laugardal og Háaleitis- og Bústaðahverfi, 6,4%.
Þegar fylgi við borgarastjóraefni framboðanna er greint eftir hverfum kemur sama mynstur í ljós. Samkvæmt könnuninni vilja að meðaltali 43,5% borgarbúa Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar, sem næsta borgarstjóra. Eyþór Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna, nefndu 29,4% og Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins 8,5%.
Stuðningur við Dag er mestur í Miðbæ og Vesturbæ þar sem hann er 55,6%, en minnstur í Árbæ, Norðlingaholti og Breiðholti, þar sem hann er aðeins 32%. Stuðningur við Eyþór er mestur í úthverfunum þar sem hann er 36-37%, en minnstur í vesturhlutanum þar sem hann er tæplega 21%. Stuðningur við Vigdísi er langmestur í Grafarvogi og aðliggjandi hverfum, 16,3%.
Í skoðanakönnuninni, sem birt var í gær, var fjöldi þátttakenda 1.610. Haft var samband bæði í síma og tölvupósti. Fjöldi þeirra sem svöruðu var 1.113 eða 69,1% úrtaksins. 1,6% ætluðu að skila auðu, 0,7% sögðust ekki ætla að kjósa, 15,7% höfðu ekki gert upp hug sinn og 12,9% vildu ekki svara.