Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í borginni

Miðað við niðurstöður könnunarinnar er meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar …
Miðað við niðurstöður könnunarinnar er meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata fallinn. mbl.is/Styrmir Kári

Sjö flokkar verða með fulltrúa í borgarstjórn samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup sem gerð var fyrir Rúv. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 28,3 prósenta fylgi og er stærsti flokkurinn í borginni. Samfylkingin fær næstmest fylgi samkvæmt könnuninni, eða 26 prósent.

Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn með 11 prósenta fylgi. Þar á eftir kemur Viðreisn með 8,7 prósent og Vinstri græn með 6,2 prósent. Miðflokkurinn fær 5,8 prósenta fylgi og Flokkur fólksins 3,8 prósent. Sósíalistaflokkurinn kemst næst því að ná inn manni með 3,4 prósenta fylgi. Þar á eftir kemur Framsóknarflokkurinn með 2,9 prósenta fylgi.

Miðað við niðurstöður könnunarinnar fær Sjálfstæðisflokkurinn átta borgarfulltrúa en meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata er fallinn. Þrír flokkar af fjórum sem mynda núverandi meirihluta bjóða fram á morgun og samanlangt fengju þeir ellefu fulltrúa. Samfylkingin fengi sjö, Píratar þrjá og Vinstri grænir einn. Viðreisn fengi tvo fulltrúa, Miðflokkurinn einn og Flokkur fólksins einn.  

Borgarfulltrúum fjölgar í 23 og miðað við niðurstöður könnunarinnar geta aðeins Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndað tveggja flokka meirihluta. 

Hin framboðin sjö mælast með 3,8 prósenta fylgi samanlagt. Enginn svarandi sagðist ætla að gefa Frelsisflokknum sitt atkvæði og einn sagðist ætla að kjósa Íslensku þjóðfylkinguna. Þá nefndu þrír Höfuðborgarlistann, fjórir Borgina okkar Reykjavík, sex Karlalistann, ellefu Alþýðufylkinguna og sautján Kvennahreyfinguna.

Könnunin var gerð dagana 22. til 25. maí. Heildarúrtaksstærð var 2.215 og var þátttökuhlutfall 57,7 prósent eða 1.104. Af þeim sögðust 6,6 prósent ekki ætla að kjósa eða skila auðu og 7 prósent tóku ekki afstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka