„Þetta eru ansi langar pípur“

Eyþór Arnalds og Dagur B. Eggertsson í sjónvarpssal í kvöld.
Eyþór Arnalds og Dagur B. Eggertsson í sjónvarpssal í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekist var hart á í sjónvarpssal Ríkisútvarpsins í kvöld þar sem oddvitar framboðanna í Reykjavík ræddu um þau málefni sem helst hafa verið til umræðu í kosningabaráttunni undanfarnar vikur og mánuði í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna á morgun.

Meðal annars var rætt um húsnæðismál og samgöngumál. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, var í upphafi inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Gallup sem birtar voru í kvöld sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn með mest fylgi, Samfylkinguna tapa fylgi og núverandi meirihluta í borginni fallinn.

Dagur sagði könnunina sýna að ekki þyrfti mikið að gerast til þess að meirihluti Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata héldi ekki (Björt framtíð var upphaflega einnig í samstarfinu en bauð ekki fram). Talið barst síðan að húsnæðismálum og sagði Dagur Reykjavík í miðju mesta uppbyggingarskeiði í sögu hennar. Borgarstjóri sagði muninn á Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum áhersluna á félagslegar íbúðir. Hún væri ekki til staðar í hinum sveitarfélögunum.

Létu eins og þeir hefðu ekki verið við völd

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði að Dagur hefði haft átta ár og öll tæki sem þörf væri á til þess að taka á húsnæðismálum í Reykjavík. Ekki þýddi að varpa ábyrgðinni á aðra en Dagur vildi rekja vandann í húsnæðismálum borgarinnar til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fyrir 20 árum fyrir að afnema félagslega húsnæðiskerfið.

Eyþór sagði að þrjú þúsund íbúðir hefðu verið í pípunum fyrir kosningarnar fyrir fjórum árum að sögn Dags og þessar sömu íbúðir væru enn í pípunum fyrir þessar kosningar. „Þetta eru ansi langar pípur.“ Sagði hann Sjálfstæðisflokkinn vilja þétta byggð þar sem það væri skynsamlegt en einnig byggja upp annars staðar. Stjórnsýslan í kringum byggingu húsa væri allt of flókin í borginni.

Kolbrún Baldursdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir og Eyþór Arnalds.
Kolbrún Baldursdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir og Eyþór Arnalds. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, sakaði Dag um blekkingar. Það væri ekki nóg að íbúðir væru í glærusýningu hjá honum. Hann væri með sömu tölur nú yfir íbúðir sem til stæði að byggja og fyrir síðustu kosningar. Sagði hún að ekki hefðu færri íbúðir verið byggðar í Reykjavík frá árinu 1929. Meirihlutaflokkarnir létu eins og þeir hefðu alls ekki verið við völd undanfarin ár.

Líf Magneudóttir, oddviti VG, sagði, aðspurð hvort hún væri stolt af því að biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík væru langir, að slíku húsnæði í borginni hefði fjölgað. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sagði vandamálið ekki það að lóðir vantaði. Lóðir fyrir 4.000 íbúðir væru þannig tilbúnar. Þeir sem létu eins og smella mætti fingri til að leysa vandann væru ekki heiðarlegir.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sagðist vilja einfalda ferlið vegna byggingar íbúða en Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokks Íslands, sagðist vilja að borgin hefði frumkvæði að því að byggja félagslegt húsnæði enda vildi ríka fólkið ekki byggja íbúðir fyrir þá sem hefðu ekki efni á þeim. Það væri enginn gróði fyrir það í því.

Sósíalískar lausnir framboðanna á vandamálum

Varðandi samgöngumálin lagði Dagur áherslu á borgarlínu en Eyþór benti á samkomulag frá 2012 sem Dagur hefði staðið að þar sem stefnt hefði verið að því að fjölga farþegum með almenningssamgöngum úr 4% í 8%. Staðan væri enn 4%. Spurði hann hvernig hægt væri að treysta Degi til þess að verja tugum milljarða til þess að fjölga farþegum almenningssamgangna. Vigdís sagði að hægt væri að leggja Sundabraut, byggja nokkur mislæg gatnamót og laga fjölmargar götur fyrir minna en borgarlína kostaði.

Líf lagði áherslu á umhverfismálin og að borgarlína væri mikilvæg í þeim efnum. Auðvelda ætti fólki að skipta yfir í vistvænan ferðamáta. Aðspurð af þáttarstjórnendum gátu þau Dagur bent á fátt sem gert hefði verið til þess að bæta samgöngur fyrir þá sem kysu að nota einkabílinn. Dóra sagði að þétta yrði byggð til að fá borgarlínu. Sagði hún ekkert stríð vera á milli einkabílsins og borgarlínu. Þetta tvennt ynni saman.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, sagði ljóst að ekki gætu allir búið í miðborg Reykjavíkur. Ekki væri nóg að þétta aðeins byggð. Sanna sagði flokk sinn vilja stórefla almenningssamgöngur og bætti því við að það væri gaman hvað öll framboð yrðu sósíalísk í aðdraganda kosninga og settu þannig fram félagslegar lausnir á vandamálum. 

Dagur B. Eggertsson, Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna …
Dagur B. Eggertsson, Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert