Óttast að Eyþór og Sigmundur nái völdum

Sverrir Agnarsson.
Sverrir Agnarsson. mbl.is/Alexander

„Ég hef nú alltaf verið vinstrisinnaður, en ekki haft um neitt að velja að undanförnu. Síðast kaus ég Pírata bara til að vera öruggur um að fá ekki Sjálfstæðisflokkinn [í samstarf],“ segir Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður Félags múslima á Íslandi, en hann er staddur á látlausri kosningavöku Sósíalistaflokksins á Bryggjunni Brugghúsi á Granda.

Hann segist hafa sannfærst um að Sósíalistar væru hans flokkur eftir að hafa fylgst með oddvitanum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur á nokkrum fundum. „Mér fannst hún bara mjög flott og ég er ánægður með hana.“ Hann segir Sönnu hafa komið vel út úr leiðtogakappræðunum á RÚV í gærkvöldi og sannfærður um að hún hafi halað inn nokkur atkvæði þar.

Útlendinga vantar í kannanir

Sverrir sá um skoðanakannanir Fréttablaðsins í áratug og tók þátt í að þróa fyrirkomulag þeirra. Hann segir kannanir, sem birst hafa síðustu vikur, geta gefið skakka mynd á vilja kjósenda þar sem jafnan náist í fáa útlendinga, sem þó eru með kosningarrétt. „Og þó það náist í, kannski 50, 60, útlendinga þá er ekki víst að það gefi jafngóða mynd og jafnmargir Íslendingar gefa, því erlendir ríkisborgarar á Íslandi eru mjög margbreytilegur hópur.“

Nýjustu kannanir hafa sýnt fylgi Sósíalista í kringum þrjú prósent og er oddvitinn, Sanna Magdalena, nálægt því að komast inn. Sverrir er bjartsýnn og á von á fylgi í kringum fjögur prósent, en slíkt myndi að öllum líkindum tryggja Sönnu sæti í borgarstjórn.

Sverrir segist allt eins eiga von á að meirihlutinn í borginni falli. Hann sé löngu búinn að veðja mörgum kaffibollum á að Eyþór og Sigmundur nái völdum í borginni, og á þá væntanlega við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk, þar sem Sigmundur er formaður. Bíladýrkun Íslendinga skýri það.

Aðspurður segir hann Sósíalistaflokkinn mögulega sjá fyrir sér að Sósíalistar hlaupi undir bagga með núverandi meirihluta, en því myndu fylgja miklar félagslegar kröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert