„Það er ótrúlegt að upplifa það að sjá sal fullan af fólki að vinna við það að þú fáir draumastarfið,“ segir Pawel Bartoszek, nýkjörinn borgarfulltrúi Viðreisnar, í samtali við mbl.is.
Viðreisn bauð fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum í ár og fékk flokkurinn 8,2% atkvæða og er þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Pawel verður fulltrúi flokksins í borgarstjórn ásamt oddvitnaum Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir Viðreisn vera í lykilstöðu varðandi myndun næsta meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Átta flokkar eiga fulltrúa í borgarstjórn og Pawel segir að sín fyrstu viðbrögð við því séu að kynna sér betur hvað hver flokkur stendur fyrir og skoða möguleika á samstarfi í framhaldinu.
„Við munum væntanlega reyna að hefja samtal við einhverja flokka í borginni um framhaldið. En það er á höndum okkar oddvita, Þórdísar Lóu, að gera það. Auðvitað talar maður um þessa hluti, það eru sumir hlutir sem við eigum augljósa samleið með sumum flokkum í ákveðnum málum. Við höfum verið flokkur sem hefur verið fylgjandi aðalskipulaginu í Reykjavík, fylgjandi þéttingu byggðar og borgarlínunni,“ segir Pawel og bætir við að Viðreisn eigi jafnframt samleið með síðasta meirihluta þegar kemur að áherslum í samgöngu- og skipulagsmálum.
„En við höfum líka verið að leggja áherslu á í okkar kosningabaráttu á hluti sem við teljum að þeir hafi ekki gert nægilega vel. Við erum með áherslu á atvinnulífið og að okkar mati ábyrgari rekstur borgarinnar. Það er ekki jafn auðvelt fyrir okkur að vinna með öllum flokkum, það er algjörlega klárt. Nú þarf maður bara að taka upp símann og heyra í fólki hér og þar á litrófinu.“
Pawel var kjörinn á þing fyrir Viðreisn árið 2016 en féll af þingi í kosningunum í fyrra. Hann færir sig nú yfir í borgarmálin. „Mér líst prýðilega á það, ég hef skrifað um borgarmál á að verða annan áratug. Ég hef haft mikinn áhuga á þessum málaflokki mjög lengi. En ég naut þingstarfsins mjög vel og hefði ekkert á móti því að staldra þar við örlítið lengur en ég lít ekki á borgarmálin sem aðra deild í stjórnmálum, engan veginn.“