Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds eru oddvitar tveggja stærstu …
Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds eru oddvitar tveggja stærstu flokka í Reykjavík. mbl.is/Arnþór

Sjálfstæðisflokkurinn fékk átta menn kjörna inn í borgarstjórn en Samfylkingin fékk sjö borgarfulltrúa. Alls munu átta flokka eiga fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur næstu fjögur árin. Fleiri konur en karlar munu sitja í borgarstjórn Reykjavíkur næsta kjörtímabil en alls verða fimmtán konur í borgarstjórn en karlarnir eru átta talsins. Sjö þeirra eru fulltrúar tveggja stærstu framboðanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. 

Viðreisn er þriðji stærsti flokkurinn í Reykjavík en Píratar eru fjórði stærsti flokkurinn. Báðir flokkar fengu tvo menn kjörna í borgarstjórn. 

Sósíalistaflokkurinn er sá fimmti stærsti og Miðflokkurinn fylgir fast á eftir. Flokkarnir fengu einn mann hvor flokkur en auk þeirra mun fulltrúi Flokks fólksins sitja í borgarstjórn og VG á einn fulltrúa í borgarstjórn að loknum þessum kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk alls 30,8% atkvæða sem er 5,09% aukning frá kosningunum árið 2014. Af átta borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins er Marta Guðjónsdóttir sú eina sem sat í borgarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili en hún kom inn í borgarstjórn þegar Hildur Sverrisdóttir fór á þing við fráfall Ólafar Nordal. Hildur var 1. varaborgarfulltrúi flokksins eftir borgarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra borgarfulltrúa. Hildur varð aðalfulltrúi þegar Júlíus Vífill Ingvarsson baðst lausnar í apríl 2016. Við fráfall Ólafar Nordal varð Hildur svo þingmaður Reykvíkinga og lét af starfi borgarfulltrúa 7. mars 2017. Sæti hennar sem borgarfulltrúi tók Marta Guðjónsdóttir, sem áður var 1. varaborgarfulltrúi flokksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verða: 

  1. Eyþór Laxdal Arnalds
  2. Hildur Björnsdóttir
  3. Valgerður Sigurðardóttir
  4. Egill Þór Jónsson
  5. Marta Guðjónsdóttir
  6. Katrín Atladóttir
  7. Örn Þórðarson
  8. Björn Gíslason

Samfylkingin fékk alls 25,9% atkvæða og tapaði 6,01% frá því fyrir fjórum árum. Þau sem sitja í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna næstu fjögur árin hafa öll setið þar áður fyrir utan Sabine Leskopf sem var varaborgarfulltrúi en fer nú inn í borgarstjórn. Guðrún Ögmundsdóttir kemur inn í borgarstjórn að nýju en hún var  borgarfulltrúi 1992–1998. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar verða:

  1. Dagur B. Eggertsson
  2. Heiða Björg Hilmisdóttir
  3. Skúli Helgason
  4. Kristín Soffía Jónsdóttir
  5. Hjálmar Sveinsson
  6. Sabine Leskopf
  7. Guðrún Ögmundsdóttir

Viðreisn bauð fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum í ár og fékk flokkurinn 8,2% atkvæða og er því þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar Viðreisnar í borgarstjórn verða Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek.

Píratar eru fjórði stærsti flokkurinn í Reykjavík með 7,7% atkvæða sem er 1,8% aukning frá síðustu kosningum. Borgarfulltrúar Pírata verða Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.

Sósíalistaflokkurinn bauð fram í fyrsta skipti í þessum kosningum og fékk flokkurinn einn borgarfulltrúa og 6,4% atkvæða. Sanna Magdalena Mörtudóttir verður fulltrúi flokksins í borgarstjórn næstu fjögur árin.

Miðflokkurinn bauð einnig fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum nú og fékk flokkurinn einn fulltrúa í borgarstjórn, Vigdísi Hauksdóttur. Miðflokkurinn fékk 6,1% atkvæða. 

Vinstrihreyfingin - grænt framboð fékk einn borgarfulltrúa kjörinn, Líf Magneudóttur, en flokkurinn fékk 4,3% atkvæða. VG tapaði 3,75% atkvæða frá því kosningunum fyrir fjórum árum.

Flokkur flokksins mun einnig eiga einn fulltrúa í borgarstjórn, Kolbrúnu Baldursdóttur, en flokkurinn fékk 4,3% atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka