Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segir Sjálfstæðisflokkinn vera með lang sterkustu stöðuna þegar litið er á heildarniðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna í gær.
„Það eru auðvitað dæmi um að við missum meirihluta og við erum ekki ánægð að sjá þá þróun sem varð í Vestmannaeyjum, til dæmis,“ sagði Bjarni meðal annars í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Meirihluti flokksins í Vestmannaeyjum féll og fær flokkurinn þrjá bæjarfulltrúa af sjö en hafði áður fimm fulltrúa. Flokkurinn hlaut 73,2% atkvæða 2014 en að þessu sinni 45,4%. Fyrir Heimaey, klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, fær þrjá bæjarfulltrúa eða jafnmarga og Sjálfstæðisflokkurinn.
Bjarni segir að niðurstöðurnar í Reykjavík séu mjög merkilegar fyrir margar sakir. „Við fórum yfir 30 prósentin og hljótum að vera ánægð með þá stöðu. Það er meiri dreifing á fylginu heldur en við höfum lengi séð. Þetta er í mínum skýrt ákall um breytingar þar.“
Hann segir stöðuna í borginni aftur á móti vera mjög flókna. „Það er ekkert nýtt að við vinnum ekki með Pírötum, þeir hafa skilgreint sig þannig í verki að þeir sækja alltaf til vinstri og það kemur ekkert á óvart í því. Það er meiri spurning með Viðreisn, hvar þeir ætli að finna sig í tilverunni.“
Bjarni vonar að skynsemi verði höfð að leiðarljósi í stjórnarmyndun í borginni. „Mér finnst það skynsamlegt sem ég heyrði í morgun að nóttin væri ekki besti tíminn til að klára þetta mál. Vonandi anda menn ofan í kviðinn og spyrja sig hvort verið sé að kalla eftir breytingum. Þetta er flókið verkefni fyrir leiðtogana sem voru að berjast um fylgi í borginni og ábyrgðin hvílir á þeim.“