„Það er ekkert í gangi sem er fréttnæmt, ég var að funda með mínu fólki í dag og fara yfir stöðuna og melta þetta,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í Reykjavík í samtali við blaðamann mbl.is. Hún segir að enn liggi ekki fyrir hvaða meirihlutamynstur Pírötum hugnist best að taka þátt í.
„Við ætlum bara að hittast aftur á morgun og skoða þetta,“ segir Dóra. Þó sé alveg ljóst að Píratar vinni ekki með Sjálfstæðisflokki.
„Já, við vorum búin að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og stöndum við það,“ segir Dóra, en hún segist tilbúin að skoða samstarf við alla aðra flokka sem náðu inn fulltrúa í borginni.
„Ég segi bara að við verðum að skoða allt og það fer bara eftir málefnum.“
Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn hafa einnig útilokað að taka þátt í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum.
Píratar bættu við sig í kosningunum í gær og fengu tvo borgarfulltrúa kjörna. Dóra segist „rosalega þakklát“ fyrir þann stuðning sem framboðið fékk og telur niðurstöðurnar sýna að Píratar hafi mikið traust.