„Það er ekkert formlegt í gangi og ekki búið að ákveða neitt svoleiðis, en fólk heyrist óformlega,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.
Fólk hafi eitthvað heyrst í síma og að svo hafi verið spjallað eftir Silfrið á RÚV í gær þar sem oddvitar allra þeirra flokka sem náðu kjöri voru gestir.
Hún segir flesta hafa verið að hitta sig bakland og því séu engar eiginlegar viðræður komnar af stað, en hópur Pírata hittist í gær og fór yfir stöðuna. Flokkurinn fékk 7,7 prósent atkvæða og tvo borgarfulltrúa.
„Eins og ég hef nefnt þá höfum við útilokað Sjálfstæðisflokkinn og það er aðallega það sem við getum talað um núna. Þegar maður er í meirihlutastamstarfi þá þarf maður að treysta þeim flokkum sem maður er í samstarfi við. Sjálfstæðisflokkurinn á það til að lofa ýmsu til að komast í samstarf en svo svíkja það þegar á hólminn er komið. Við höfum áhyggjur af því og finnst ekki spennandi kostur að vinna með svoleiðis flokki.“
Þrátt fyrir skort á trausti segir hún Pírata ekki koma til með að eiga í vandræðum með að starfa með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn næstu fjögur árin. „Það er auðvitað allt annað mál að geta unnið saman að góðum málum í borgarstjórn. Það að vera í meirihlutasamstarfi krefst trausts og það þarf að liggja fyrir.“
Dóra segir Pírata að öðru leyti vera opna fyrir ýmsum möguleikum, til að mynda að fá inn einhvern af þeim nýju flokkum sem fengu fulltrúa í borgarstjórn. „Það er ekkert sem við útlokum fyrirfram, en Miðflokkurinn hefur kannski talað sterkt gegn ákveðnum málefnum sem við höfum lagt áherslu á, en þetta myndi alltaf fara eftir þeim sáttmála sem yrði búin til. Ég sé kannski ekki fyrir mér að Miðflokkurinn væri tilbúinn að breyta út frá sinni stefnu. Það myndi væntanlega stranda á einhverju svoleiðis,“ segir Dóra, en Píratar hafa verið í meirihluta í borgarstjórn ásamt Samfylkingu, Vinstri grænum og Bjartri framtíð síðustu fjögur ár. Sá meirihluti féll, en Björt framtíð bauð ekki fram í kosningunum í ár.
Fráfarandi meirihluti hefur nú tíu borgarfulltrúa a en þar sem borgarfulltrúum hefur verið fjölgað í 23 er minnsti mögulegi meirihluti 12 fulltrúar.
„Við erum bara að skoða þetta út frá málefnum og áhuga, en með Sjálfstæðisflokkinn þá sjáum við bara nýleg dæmi um að Bjarni Benediktsson er farinn að tala gegn ríkisstjórnarsáttmálanum. Það er dálítið erfitt að vinna með svoleiðis fólki,“ segir Dóra.