Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, og Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi flokksins, ætla ekki að taka þátt í fyrirhuguðum viðræðum um meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta kemur fram á vefsíðu flokksins.
Sósíalistaflokkurinn hlaut einn borgarfulltrúa í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.
„Einn borgarfulltrúi tjóðraður niður í meirihlutasamstarf við aðra flokka mun fá litlu áorkað. Einn borgarfulltrúi getur ekki breytt kerfinu innan frá, allra síst ef hans fyrsta verk verður að ganga inn í svo til óbreyttan meirihluta um stefnu sem sósíalistar gagnrýndu harðlega í kosningabaráttunni,“ segir í tilkynningu frá Sönnu og Daníel Erni á vefsíðunni.
„En einn borgarfulltrúi getur tekið virkan þátt með félögum sínum í að byggja upp samstöðu meðal láglaunafólks, innflytjenda, leigjenda, eftirlaunafólks, öryrkja og annarra valdalausra hópa og verið farvegur fyrir baráttu þeirra inn í borgarstjórn. Þannig borgarfulltrúar viljum við vera og þannig borgarfulltrúa eru félagar okkar í Sósíalistaflokknum að kalla eftir,“ segir einnig í tilkynningunni.
Þar kemur fram að ekkert muni ávinnast í samningaviðræðum eins borgarfulltrúa við ríkjandi öfl.