Það hefur áhrif á landslagið í borgarstjórnarviðræðum að Sósíalistar eru búnir að útiloka þátttöku í meirihlutaviðræðum. Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, og kveður Viðreisn ekki útiloka samstarf við neinn flokk.
„Ég er búin að tala við allt þetta fólk og hef átt mjög gott samtal við það, líka Flokk fólksins og Miðflokkinn,“ segir Þórdís Lóa. Borgarfulltrúar Viðreisnar hafi gefið sér frið í gær og átt góð samtöl við marga.
„Það er ekkert formlegt byrjað, að minnsta kosti ekki hjá okkur. Við munum þó að sjálfsögðu greina frá því þegar gerist,“ segir hún og kveðst telja að línur fari að skýrast fljótlega. „Ég ætla ekki að lofa neinni tímalínu um það. Það eru margir nýir flokkar komnir í borgarstjórn og landslagið svolítið öðru vísi en það var.“
Ólafur Þ. Harðarsonar stjórnmálfræðingur dró í Facebook-færslu í gær líkur að því að Viðreisn gangi frekar til samstarfs við vinstri flokkana í borginni, þar sem að flokkurinn sæki fylgi sitt meira þangað. Er Þórdís Lóa er spurð út í þessi rök svarar hún: „Það er skemmtun út af fyrir sig hjá okkur sem erum í þessu að fylgjast með skýringunum, en við sem erum í raunveruleikanum erum þar og erum í samtalinu. Við eigum snertifleti í báðar áttir og okkar stefna hefur verið opinber frá byrjun og það má lesa hana á margan hátt, sem mér heyrist menn vera að gera.“
Viðreisn eigi enn í samræðum við flokka til bæði hægri og vinstri í borginni. „Við höfum alla tíð sagt að við göngum algjörlega óbundin og sjáum samlegðaráhrif á mörgum stöðum. Fletirnir eru mýmargir, þannig að staðan er galopin.“
Spurð hvort að Viðreisn geri kröfu um borgarstjórastólinn segir Þórdís Lóa að byrjað verði að ræða málefnin, líkt og flokkurinn hafi alltaf sagst munu gera. Verkaskipting muni fylgja í kjölfarið ef samkomulag náist um málefnin.
„Það er krafa um breytingar og við komum inn sem sá flokkur sem vann stærstan sigur í þessum kosningum. Við erum með 8% fylgi,“ segir Þórdís Lóa. Sjálfstæðisflokkurinn hafi hækkað um 5 prósentustig og Samfylkingin fallið um 6 prósentustig. „Þetta er líka mikill kosningasigur fyrir Sósíalista, Miðflokk, Pírata og Flokk fólksins. Þannig að þetta er alveg nýtt landslag sem við erum með.“