„Ég er með Pawel, Þórdísi Lóu og Elínu í lyftu og það er gaman,“ sagði Líf Magneudóttir, oddviti VG í Reykjavík, við mbl.is. Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, VG og Pírata hófu formlegar meirihlutaviðræður rétt fyrir hádegi í dag.
Flokkarnir ákváðu í gær að hefja formlegar viðræður en tveir fulltrúar frá hverjum flokki taka þátt í þeim.
Markmiðið er að samstarfssáttmáli nýs meirihluta liggi fyrir vel tímanlega fyrir fyrsta borgarstjórnarfund nýrrar borgarstjórnar 19. júní næstkomandi.
„Nú ætlum við að setjast niður og fara yfir þetta,“ sagði Líf og bætti við að allt tal um kröfur hvers flokks fyrir sig ætti eftir að koma í ljós.