„Ég get ekki litið á þetta öðruvísi en svo að ég hafi fengið uppsagnarbréf frá Sjálfstæðisflokknum,“ segir Theódóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti BF Viðreisnar, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun.
Mikil ólga virðist vera í Sjálfstæðisflokkinum í Kópavogi og hún hafi heyrt alls konar skýringar á því af hverju hluti flokksins, þau Margrét Friðriksdóttir, Karen Elísabet Halldórsdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal, hafi lýst því yfir á fundi á sunnudag að þau vilji ekki ganga til samstarfs við BF-Viðreisn. Þær skýringar snúi bæði að sinni persónu og eins að samstarfi við Viðreisn.
Segir Theódóra vissulega vera vanda varðandi áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar, sem bauð nú síðast fram sem BF Viðreisn, í Kópavoginum.
„Aðrir kostir hafa verið skoðaðir á meðan,“ segir hún og kveður pattstöðu vera í málinu. „Ætli niðurstaðan verði ekki sú að Sjálfstæðisflokkurinn fari í samstarf með Framsóknarflokkinum, því það er ekki vænlegt að þvinga samstarf áfram á óánægju.“
Segir Theódóra það hafa komið sér á óvart að Margrét skuli lýsa því yfir skyndilega að hún vilji ekki vinna með sér áfram. „Það var ekkert í kortunum,“ segir hún.
„Allt í einu snýst þetta um persónur,“ segir Theódóra og kveður afstöðu bæjarfulltrúanna þriggja vera rýting í bak Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins. „Margrét fer nú fram gegn Ármanni sem vill samstarfið,“ segir hún. „Hann er að verða í minnihluta í eigin flokki.“
Sjálf upplifi hún þetta sem gufustrók af gamalli pólitík. „Það var óánægjuarmur í Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum og það vita það margir að það voru ólíkir hópar sem studdu Margréti og sem studdu Ármann. Nú er mikil óeining aftur innan flokksins sem mér finnst vera dapurlegt því að ásýnd Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi hefur verið góð síðustu kjörtímabil.“
Benti Theódóra einnig á að þau Margrét og Birkir Jón Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, eigi sameiginlegan vin á Siglufirði í Gunnari Birgissyni bæjarstjóra. „Þau vilja frekar það samstarf en mig.“
Theódóra segist búin að heyra að afstaða bæjarfulltrúanna beinist gegn sér persónulega. „Ég les í fjölmiðlum að ég sé nánast ekki húsum hæf og klaufi í samskiptum,“ segir hún. Vissulega hafi hún ekki verið að skapa sér vinsældir þar inni með ákvörðunum þar sem hún hafi staðið í lappirnar. „Ég veit ekki hvort það er að hafa áhrif.“
Teknar hafi verið ákvarðanir og komið upp mál á síðasta kjörtímabili þar sem þær Margrét hafi ekki verið sammála. „Við vorum t.d. ekki sammála í launamálum, málefnum og bæjarskrifstofu og öðru.“
Óvissuferð bæjarfulltrúa, sem hún hafi verið mótfallin að farin yrði á kostnað bæjarbúa, kunni einnig að eiga hlut að máli. „Ég veit að þetta fór í taugarnar á þeim [Margréti og Ásu Richardsdóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingar]. Ég var ekki vinsæl í svona ákvörðunum, en ég læt fólk ekki koma mér í óþægilega stöðu.“
Segist Theódóra vita vel að fólki finnist óþægilegt að hún ræði þetta. „En það er alltaf þannig þegar maður upplýsir og reynir að breyta og laga.“
Hún kveðst hafa rætt við Ármann í vikunni og hann hafi lýst því yfir að hann vilji standa við fyrri yfirlýsingar um áframhaldandi samstarf. „Ég held hins vegar að það sé fullreynt allt og Margrét hafi yfirhöndina.“ Sjálfstæðisflokkurinn fari því væntanlega í samstarf við Framsókn.
„Þetta er atburðarás sem ég hafði ekki hugmyndaflug í,“ segir Théodóra. „Þarna eru tvær konur sem standa í vegi fyrir því að þetta haldi áfram.“
Lýðræðisleg niðurstaða hafi verið sú að Kópavogsbúar hafi viljað sama meirihluta áfram og engin málefnalegur ágreiningur sé milli flokkanna. Hún sé hins vegar ekki til í átakapólitík og muni því frekar fara að gera eitthvað annað.