Samfylkingin missir fylgi

Frá kosningavöku Samfylkingar í vor en um þriðjungur þeirra sem …
Frá kosningavöku Samfylkingar í vor en um þriðjungur þeirra sem tóku afstöðu töldu Dag B. Eggertsson bera ábyrgð á braggamálinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylkingin tapar mestu fylgi allra borgarstjórnarflokkanna samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is. Aðrir flokkar í meirihluta bæta hins vegar við sig fylgi eða halda í horfinu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist, líkt og í síðustu kosningum, stærstur flokka.

Samkvæmt könnuninni myndu um þrír af hverjum tíu, sem tóku afstöðu, greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt en það er svipað og kjörfylgi flokksins í vor. Samfylkingin mælist með 21 prósent en hlaut tæp 26 prósent í kosningunum. Píratar bæta nokkru við sig og fengju 12,7 prósent atkvæða samanborið við tæp 8 í vor. Viðreisn mælist með rúm 9 prósent nú samanborið við rúm 8 í vor. Vinstri græn mælast með ríflega 8 prósent og bætir nokkru við sig. Flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum.

Séu niðurstöður könnunarinnar mátaðar við stóla borgarfulltrúa myndi meirihlutinn halda velli með þrettán fulltrúa en vera öðruvísi samansettur. Samfylkingin myndi tapa tveimur mönnum en Píratar og Vinstri græn bæta við sig einum manni hvor flokkur. Borgarstjórnarflokkur Viðreisnar myndi áfram telja tvo menn. Samsetning borgarfulltrúa minnihlutans væri óbreytt.

Um þriðjungur aðspurðra sem tóku afstöðu er á því að ábyrgðin á framúrkeyrslu á kostnaði við endurbætur og viðbyggingar braggans í Nauthólsvík sé Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Hópar þeirra sem telja ábyrgðina vera meirihlutans annars vegar eða embættismanna borgarinnar hins vegar eru nánast jafnstórir en hvor um sig er um 26,5 prósent. Um níu prósent telja að hönnuðir og arkitektar beri ábyrgðina á framúrkeyrslunni og rúm fimm prósent telja hana annarra. Í framangreindum tölum hafa þau sem kusu að gefa ekki upp afstöðu sína verið tekin út fyrir sviga en það var tilfellið hjá tæplega fimmtungi svarenda, segir í frétt Fréttablaðsins á blaðsíðu sex í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert