Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður er sagður líklegur til þess að leiða lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Austurfréttir greindu fyrst frá.
„Það er umræða um þetta en það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Þetta skýrist kannski í dag eða á morgun,“ segir Jakob í samtali við mbl.is.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vill hvorki staðfesta né neita því að Jakob verði oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi og bætir við að þetta skýrist á næstu dögum.
„Ég ætla ekki að fara skemma spennuna,“ sagði Inga í samtali við blaðamann.
Jakob hefur áður verið varaþingmaður hjá Samfylkingunni en yfirgaf flokkinn og fór í framboð fyrir Íslandshreyfinguna árið 2007, þar sem hann var oddviti á lista í Suðvesturkjördæmi.