Bjarni vill áfram byggja land tækifæranna, Ísland

Bjarni Benediktsson á fundinum í dag.
Bjarni Benediktsson á fundinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór yfir farinn veg og boðaði áherslur komandi kjörtímabils í ávarpi sínu á kosningastefnufundi formanna og flokksráðs í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Fundurinn hefur verið í beinu streymi en fer auk þess fram á ýmsum stöðum víða um land.

Fyrir aftan Bjarna blasti við yfirskrift fundarins, „Land tækifæranna“. Bjarni sagði það grundvallar lífskjaramál að stefna að því að stöðugleiki, framfarir og frelsi ráði för á nýju kjörtímabili. Nú væri ekki tími skattahækkana, stjórnlyndis með aukinni miðstýringu og tilheyrandi skerðinga. 

Raunveruleg jöfn tækifæri

Jöfn tækifæri eru grundvöllur velferðarsamfélagsins að sögn Bjarna: „Hér á Íslandi leggjum við alla áherslu á raunveruleg jöfn tækifæri til náms, menntunar og aðgengis að heilbrigðisþjónustu. Þetta styður við frelsi til að móta eigin framtíð. Skapa sér lífið sem við sækjumst eftir, hvert og eitt.“

Umhverfismál eru ekki einkamál vinstrisins að sögn Bjarna: 

„Ég fór að rifja það upp í vikunni að fyrir um 15 árum fór fram lífleg umræða um umhverfismál og vinstrið og hægrið. Sagt var beint út að það væri ekki hægt að vera grænn og fyrir umhverfið nema vera vinstrisinnaður.

Að frjáls markaður væri andstæða umhverfisverndar. Tíminn hefur leikið þessar furðulegu kenningar heldur grátt. Aldrei hefur verið skýrara að viljinn til að nýta sjálfbæra orku er forsenda þess að geta ráðist í orkuskipti.“

Af fundinum sem fór fram á Reykjavik Nordica.
Af fundinum sem fór fram á Reykjavik Nordica. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

25 milljörðum lægri tryggingagjöld

Tryggingagjald og skattalækkanir í tíð Bjarna voru einnig tekin til umræðu. Bjarni benti á að bæði hjá heimilum og fyrirtækjum hafi skattað lækkað í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins:

„Í okkar stjórnartíð höfum við lækkað tryggingagjaldið svo hressilega að íslensk fyrirtæki greiða 25 milljörðum minna á ári. 25 milljörðum!  Við höfum líka afnumið tolla og vörugjöld, stórfækkað í hópi þeirra sem greiða fjármagnstekjuskatt og nýtt skattalega hvata, frekar en þvinganir, til að stuðla að grænu byltingunni.“

Bjarni gefur lítið fyrir loforð flokka á vinstri ás stjórnmála:

„Það er ekki vinstrimennska eða sósíalismi, heldur sjálfstæðisstefnan allt frá árinu 1929, sem hefur verið grunnurinn að góðum árangri okkar Íslendinga. Þessar kosningar snúast um að þannig verði það áfram. Þær snúast um að án Sjálfstæðisflokksins verður hér vinstristjórn í einu formi eða öðru. 

Það má ekki gerast því við vitum hvað það þýðir. Hærri skattar, óráðsía og glundroði. Ekki jöfn tækifæri, heldur jöfn útkoma, undir stjórn hins opinbera.“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Skattalækanir upp á 35 milljarða á ári

Bjarni benti á að skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins frá 2013 nemi 35 milljörðum króna á hverju ári, sem séu eftir hjá heimilum í landinu. Þar af munar mestu um skattalækkanir síðustu tvenn áramót en launamaður með 400 þúsund króna mánaðarlaun hefur 120 þúsund krónum meira milli handanna á ári en áður en til þeirra kom.

Hlutabréfaútboð Íslandsbanka var einnig meðal umræðuefna en Bjarni fagnaði því að hafa fengið 20 þúsund nýja fjárfesta, milljarða í ríkissjóð og aukið verðmæti á hlutnum sem eftir stendur:

„Við sögðumst ætla að draga úr umsvifum ríkisins í bankarekstri og koma á heilbrigðara eignarhaldi. Það tókst! Við seldum þriðjung, um 50 milljarða hlut í Íslandsbanka og skráðum hann á markað.“

Leiðrétting stöðu eldri borgara á dagskrá

Bjarni sagði ýmsar vegir færar til að leiðrétta stöðu þeirra sem hafi lítil réttindi í dag svo það jafngildi inneign í lífeyrissjóðum:

„Því til viðbótar þarf að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, gera fólki betur kleift að auka tekjur sínar. Það er allt rangt við að draga úr vilja fólks til vinnu. Skattkerfið getur hér gert meira gagn en bætur almannatrygginga. 

Sérstakur persónuafsláttur - eftir atvikum útgreiðanlegur er raunhæf lausn. Breytingar af þessu tagi munu ekki gerast í einu vetfangi. Það þarf undirbúning og samráð og ná þarf meirihluta fyrir uppstokkun. Fyrsta skrefið er þó hægt að taka strax, og við leggjum til að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna 1. janúar í okkar stjórnmálaályktun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert