Landsþing Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Viðreisnar fara fram í dag, víðs vegar um landið. Öll hefjast þau innan skamms og verður sagt frá framvindu mála á mbl.is.
Ræður formanna flokkanna bera þar hæst en þær verða allar í beinu streymi hér á vefnum; ræða formanns VG fyrst klukkan 10:15, þá ræða formanns Sjálfstæðisflokks klukkan 13:30 og loks ræða formanns Viðreisnar kl 16:00.
Stefnumál allra þessara þriggja flokka verða svo kynnt síðdegis í dag og verða þeim gerð skil.
Landsþing VG og Viðreisnar verða haldin rafrænt en ræðum formanna er streymt frá Silfurbergi í Hörpu í tilfelli VG og frá Grand Hotel Reykjavík í tilfelli Viðreisnar. Hæst ber svo á landsþingi VG að kosið verður í stjórn flokksins. Sjálfkjörið er í embætti formanns og varaformanns en búist er við spennandi kosningu í embætti ritara flokksins þar sem tvær eru í framboði.
Illa hefur gengið að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins undanfarna mánuði vegna sóttvarnatakmarkana og hefur fundinum því verið frestað oftar en einu sinni. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er gjarnan kosið um embætti í stjórn flokksins, sem verður þó ekki í dag þar sem aðeins er um stefnumótunarfund flokksráðs að ræða, en ekki eiginlegan landsfund.
Sjálfstæðismenn verða því að bíða fram yfir næstu kosningar eftir því að geta komið saman og kosið nýja stjórn flokksins. Í henni sitja nú Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem formaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem varaformaður og Jón Gunnarsson þingmaður sem ritari.
Ólíkt Vinstri grænum og Viðreisnarfólki munu sjálfstæðismenn ekki funda rafrænt heldur verða haldnir fundir víðsvegar um landið; á Hótel Nordica við Suðurlandsbraut, Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum.