Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, leit yfir verk ríkisstjórnar sinnar á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka, í setningarávarpi sínu á landsfundi flokksins í morgun. Kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áhrifum hans voru henni ofarlega í huga.
Hún rakti meðal annars þær aðgerðir sem ráðist var í; hækkun atvinnuleysis- og barnabóta, aukinn stuðningur við sálfræðiþjónustu, hlutabótaleiðin, lokunarstyrkir, tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir.
„Ég er ekki hrædd við dóm sögunnar í þessum efnum – ég er sannfærð um að hann verður sá að Ísland hafi staðið vaktina í þágu fólksins í landinu. Ef heimsfaraldur kórónuveiru verður kosningamál hef ég engar áhyggjur, fólkið í landinu veit að við höfum staðið með því,“ sagði Katrín í ávarpi sínu.
Katrín nefnir einnig aðgerðir sem eru faraldrinum óviðkomandi; friðlýsing fleiri svæða en áður hefur verið gert á einu kjörtímabili, undirbúningur stórra skrefa í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, lenging fæðingarorlofs, stytting vinnuviku, undirritun Lífskjarasamninga, aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og aðgerðir í málefnum kynferðisofbeldis svo eitthvað sé nefnt.
Katrín segir einnig að Ísland sé land tækifæranna, en að ekki sé sjálfgefið að allir Íslendingar fái notið þeirra. Þess vegna brýndi hún fyrir félagsmönnum VG hver verkefni næstu ríkisstjórnarinnar verða þar að lútandi, ríkisstjórn sem Katrín segist tilbúin að leiða.
„Næsta ríkisstjórn snýst um þetta; jöfn tækifæri og jöfn réttindi allra. Næsta ríkisstjórn snýst um að bæta lífskjör á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi. Við munum öll sjá hversu miklu innviðauppbygging undanfarinna ára mun skila landinu fram á við. Næsta ríkisstjórn snýst um að snúa vörn í sókn í baráttunni gegn loftslagsvánni. Næsta ríkisstjórn snýst um að stíga stór skref í að auka verðmætasköpun í öllum greinum með aukinni áherslu á þekkingargeirann og skapandi greinar. Og þessa ríkisstjórn erum við tilbúin að leiða og tryggja að sú bjarta framtíðarsýn sem við stöndum fyrir verði leiðandi við ríkisstjórnarborðið á næsta kjörtímabilið og tryggja áfram velsæld og framfarir fyrir Ísland – fyrir okkur öll.“
Stefnumál Vinstri grænna verða kynnt síðar í dag, en þau grundvallast af samþykki landsþingsins. Þinginu lýkur síðdegis og verða stefnumálin kynnt strax í kjölfarið.
Þá verður einnig kosið í stjórn flokksins. Sjálfkjörið er í embætti formanns og varaformanns en búist er við spennandi kosningu í embætti ritara flokksins þar sem tvær eru í framboði.