Velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, ávarpar landsfund flokksins.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, ávarpar landsfund flokksins. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Efnahagsstefna sem tryggir velferð, grænar fjárfestingar, loftslagsvæn nýsköpun, tryggð afkoma og aðgangur að grunnþjónustu fyrir alla og jafnrétti kynjanna eru meðal helstu stefnumála Vinstri grænna í alþingiskosningum 25. september.

Stefnumál flokksins voru kynnt á landsþingi flokksins fyrr í dag.

„Með VG í forystu ríkisstjórnar höfum við hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi að tryggja öllum velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum. Það skiptir alltaf máli en ekki síst þegar óvænt áföll dynja á,“ segir í stefnumálum flokksins undir fyrsta undirflokknum sem er undir yfirskriftinni „Það skiptir máli hver stjórnar“.

Skattkerfið eigi að vera réttlátt jöfnunartæki

„Tryggjum áfram lága vexti og sterka velferð með því að viðhalda samspili ríkisfjármála og peningastefnu. Nýta á skattkerfið til að jafna kjör, og meta kosti þess að taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Skattkerfið á að styðja við markmið í loftlagsmálum,“ segir í stefnuálum flokksins.

Þá segir einnig að öflugt samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sé undirstaða samfélagslegra framfara og efnahagslegs stöðugleika.

Sköpun á nýjum og fjölbreyttum grænum störfum, meta ávinning styttingu vinnuvikunnar, halda áfram að styrkja rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar, tryggja sambærilega fjármögnun til háskóla og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, verða einnig í stefnumálum flokksins.

Frambjóðendur VG í Reykjavík suður. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leiðir lista …
Frambjóðendur VG í Reykjavík suður. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leiðir lista flokksins í kjördæminu.

Flokkurinn vill að þau sem nýta auðlindir sem eru í þjóðareign, hvort sem það sé land, orka, sjávarauðlindin eða annað, þurfi að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu. Hann segir Alþingi eiga að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.

Þá segir einnig í stefnumálum flokksins að uppfæra skuli markmið Íslands og stefnt að auknum samdrætti í losun, eða a.m.k. 60% árið 2030 og kolefnisleysi eigi síðar en árið 2040.

Vilja tryggja betur réttarstöðu brotaþola kynbundins ofbeldis

„Tryggjum betur réttarstöðu brotaþola kynbundins ofbeldis, kynferðisofbeldis og áreitni með skýrum lagabreytingum og markvissri framkvæmd,“ segir í stefnumálum flokksins, þar sem segir einnig að stíga þurfi stór skref í að útrýma launamun kynjanna.

Þá vill flokkurinn innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og stofna sjálfstæða mannréttindastofnun til þess að fylgja því eftir sem og öðrum mikilvægum verkefnum á sviði mannréttinda.

„Við þurfum ríkisstjórn sem er alltaf á vaktinni þegar kemur að mannréttindum og jafnrétti kynjanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert