Lausnarorðið er vöxtur úr kreppu

Bergþór Ólason, Kristrún Frostadóttir og Bjarkey Olsen í viðtali hjá …
Bergþór Ólason, Kristrún Frostadóttir og Bjarkey Olsen í viðtali hjá Stefáni Einari Stefánssyni. mbl.is

Staða ríkissjóðs er sterk, þrátt fyrir mikla skuldasöfnun síðasta eina og hálfa árið. Þetta er mat þingmannanna Bergþórs Ólasonar og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Kristrún Frostadóttir sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður er á sama máli en þau eru gestir í Dagmálum í dag þar sem kastljósinu er beint að efnahags- og ríkisfjármálum landsins.

Þá gætir einnig samhljóms í málflutningi þeirra um mikilvægi þess að íslenska hagkerfið vaxi upp úr kreppunni sem hitti landið fyrir fyrra með þeim afleiðingum að verg landsframleiðsla dróst saman um 6,5%, sé mið tekið af bráðabirgðaútreikningum Hagstofunnar. Hins vegar eru áherslur flokkanna ólíkar þegar kemur að því að marka brautina til vaxtar. Skilur þar ekki síst á milli þegar litið er til afstöðunnar til skattkerfisins og hvort breytingar skuli gerðar til hækkunar skatta eða lækkunar.

Ekki aðeins til tekjuöflunar

Bjarkey ítrekar að VG líti svo á að skattkerfið sé ekki aðeins verkfæri til að afla ríkissjóði fjármagns heldur einnig til þess að jafna kjör fólks í landinu. Bendir hún í því sambandi á að rétt væri að þrepaskipta fjármagnstekjuskatti sem nú er 22%. Spurð út í hver efri mörk skattsins gætu þá orðið segir hún að það sé útfærsluatriði. „Fyrir mér gæti það alveg verið 25% og meira að segja alveg hærra,“ en hún telur mikilvægt að tekjur hins opinbera af fjármagnstekjuskatti renni einnig að einhverjum hluta til sveitarfélaganna. Kristrún segir að henni hugnist ekki hækkun fjármagnstekjuskatts vegna þess að hann dragi úr hvata til að sækja ávöxtun á fjármagn. Öðru máli gegni um eignaskatta.

Hugmyndir Samfylkingarinnar um stóreignaskatt bar þannig á góma en tillögur flokksins um eignaskatt á hreina eign fólks yfir 200 milljónum voru gerðar opinberar í lok ágústmánaðar. Segir Kristrún að samfélög Vesturlanda séu í auknum mæli að horfa til eignaskatta. Þeir séu að mörgu leyti réttlátari en tekjuskattar og feli ekki í sér eignaupptöku eins og stundum sé haldið fram.

Stóreignaskattur breytir fjárfestingarákvörðunum

„Þetta snýst ekkert um eignaupptöku heldur hófleg prósenta á eignir snýst í raun um að klípa af ávöxtun eigna. Segjum sem svo að þú sitjir á 500 milljónum króna. Ef þú færð 1 til 1,5 prósent ofan á þig, hvað gerir það. Jú það þýðir að þú þarft í stað þess að sækja 3-4% ávöxtun þá reynir þú að sækja 5-7% ávöxtun og hvað þýðir það í stað þess að vera bara í ríkisbréfum, löngum skuldabréfum þá fjárfestir þú í einhverju nýsköpunarfyrirtæki,“ segir Kristrún.

Kortleggja þarf eignir í landinu

Bjarkey Olsen tók undir þetta sjónarmið og er fylgjandi stóreignaskatti sem gæti numið 1-2% af hreinni eign fólks. Var samhljómur í máli þeirra um að þessar leiðir þurfi að skoða en að eignastaða fólks hér á landi sé ekki nægilega vel kortlögð af hálfu hins opinbera og það geri mat á því hversu miklu skattar af þessu tagi geti skilað, nokkuð flókið.Bergþór var á öndverðum meiði við þær í skattamálefnunum og telur nú þegar of miklar álögur á fyrirtækjum og einstaklingum. Benti hann á að vísasta leiðin til þess að koma hagkerfinu í samt lag væri að leysa úr læðingi krafta með því að gefa fólki færi á að halda meiru eftir af sjálfsaflafé sínu.

Skapar hvata til ráðdeildar

Í tengslum við þær hugmyndir barst talið að hugmyndum Miðflokksins um að helmingi af afgangi ríkissjóðs verði skilað til þjóðarinnar. Benti Bergþór á að með því skapaðist hvati fyrir forsvarsmenn ríkisstofnana til að fara vel með almannafé. Spurður hvort það leiddi ekki einfaldlega til þess að þeir myndu tryggja að aldrei yrði afgangur af starfseminni sagði Bergþór að aðhald frá almenningi kæmi í veg fyrir það. „Þarna verðum við með her borgaranna í að gagnrýna okkur stjórnmálamennina fyrir að eyða fjármununum í vitleysu,“ sagði Bergþór. Hugmyndir Miðflokksins hugnast hvorki Bjarkeyju né Kristrúnu og voru þær sammála um að nær væri að laga skattheimtuna að þörfum ríkissjóðs á hverjum tíma. Þannig væri mikill afgangur af afkomu ríkissjóðs til marks um annað tveggja, vanfjárfestingu eða ofsköttun. Er fjárfesting í opinberum rekstri og þjónustu einnig mikið til umræðu í þættinum sem aðgengilegur er áskrifendum á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert