Vilja að almenningur dragi úr neyslu

Frambjóðendur Vinstri grænna og Samfylkingar telja að Íslendingar þurfi að temja sér minni neyslu í nafni umhverfisverndar og loftlagsmála.

Orri Páll Jóhannsson, sem er í 2. sæti Vinstri grænna í Reykjavík suður og jafnframt aðstoðarmaður umhverfisráðherra, telur að heimsfaraldurinn hafi kennt mönnum eitt og annað um lífsgæði og hamingju, sem felist ekki endilega í tíðum utanlandsferðum. Við blasi nýr veruleiki með neti og samfélagsmiðlum, fólk þurfi ekki út fyrir túngarðinn. „Þessi hraði, þessi ofboðslega neysla, þessar tíðu utanlandsferðir, allur þessi ofboðslegi snúningur á okkur, það er ekki endilega ávísun á velsæld og lífsgæði.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem er í efsta sæti Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi umhverfisráðherra, tekur í sama streng. Hún segir nauðsynlegt að fólk draga úr neyslu, kaupa minna og kaupa vandaðri vöru, sem endist betur, framleiða minna af einnota vöru og drasli. 

Teitur Björn Einarsson, 3. maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, varar eindregið við neyslustýringu stjórnmálamanna og leiðsögn þeirra um þarfir almennings. „Við þurfum að að draga úr losun vegna jarðefnaeldsneyti. En við erum ekki að fara að biðja almenning um að draga úr neyslu, minnka launin sín, draga úr störfum til þess að ná loftslagsmarkmiðum. Það er ekki framtíðarsýn sem gengur upp og þá erum við ekki heldur með sérstakt framlag til að leysa þetta alþjóðlega vandamál, sem loftslagsbreytingarnar eru.“ Hann segir þvert á móti aðstæður á Íslandi gefa kost á hnattrænu framlagi Íslendinga án þess að þeir þurfi að temja sér meinlæti.

Orri Páll, Teitur Björn og Þórunn eru gestir í málefnaþætti Dagmála í aðdraganda Alþingiskosninga. Þar ræddu þau um umhverfis-, auðlinda- og atvinnumál í víðu samhengi. Dagmál eru streymisþættir Morgunblaðsins, opnir öllum áskrifendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert