Ríkissjóður gæti tekið lán fyrir borgaralaunum

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir að ríkissjóður geti tekið lán til þess að  koma á borgaralaunum í fyllingu tímans. Píratar leggja til í kosningastefnuskrá sinni að á komandi kjörtímabili verði tekin fyrstu skrefin í átt til borgaralauna eða skilyrðislausrar grunnframfærslu, eins og hún er þar nefnd, með því að greiða út persónuafslátt og draga úr skerðingum bótagreiðslna.

Þetta er meðal þess, sem fram kemur í ítarlegu forystuviðtali í Dagmálum Morgunblaðsins í dag, en kosningaþættir Dagmála eru til kynningar í opnu streymi á mbl.is, en að öllu jöfnu eru þeir aðeins opnir áskrifendum.

Halldóra treysti sér ekki til þess að slá tölu á kostnaðinn, sem upptaka borgaralauna hefði í för með sér, en tók undir að útgjöldin myndu nema hundruðum milljarða króna á ári og ríkissjóður stækka um helming fyrir vikið. Hún nefndi nokkur dæmi um hvernig finna mætti nýjar tekjur eða sparnað hjá hinu opinbera upp í það, svo sem bætt skattaeftirlit, hærri veiðigjöld, þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt og endurskoðun á útgjöldum. Langur vegur væri þó frá því að það hrykki til.

„Svo bara líka lán. Það er allt í lagi að segja það. Það er allt í lagi að taka lán fyrir fjárfestingum. Ef við erum að fjárfesta í fólki – alveg eins og í innviðum eða öðru – þá erum við að sjá fyrir okkur að við erum að gera það út af því að það er að fara að skila til baka seinna. Þetta er lenskan um allan heim.“

Hún kvaðst ekki geta svarað því hvort þetta mætti gera með innlendri skuldabréfaútgáfu eða erlendri lántöku, það væri verkefni hagfræðinga að leysa úr því. 

Fjárfest í framtíðarsamfélaginu

Halldóra nefndi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefði mælst til þess að ríki reyndu að vaxa út úr kórónukreppunni í stað þess að fara í niðurskurð. „Við getum og við megum leyfa okkur að fjárfesta á þennan hátt í framtíðarsamfélaginu.“

Hún minnti á að víða um heim stæðu yfir tilraunaverkefni um borgaralaun, þótt þau hefðu hvergi verið tekin upp á landsvísu enn. Það setti hún meðal annars í samhengi við aukna sjálfvirkni og fjórðu iðnyltinguna, sem myndu gerbreyta atvinnulífi í heiminum. Þá myndu líklega mörg störf tapast og engan veginn víst að unnt væri að skapa nægilega mörg störf í þeirra stað.

„Og hvað þá? Viljum við það? Er það eitthvað sem við eigum að vera að gera? Eigum við að vera að setja rosalega mikla orku í að búa til störf fyrir fólk í staðinn fyrir að setja bara fjármagn í hendurnar á fólki og treysta því til þess að skapa störfin sjálf?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert